144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka fyrir þessa ágætu umræðu um þetta um margt vonda mál sem heitir Ráðstafanir í ríkisfjármálum og er stundum kallað bandormurinn í þinglegri meðferð og varðar ýmislegt það sem eru forsendur fjárlaga, en líka ýmsar þær lagabreytingar sem nauðsynlegt þykir að gera í tengslum við afgreiðslu fjárlaga.

Það er auðvitað óhjákvæmilegt þegar við ræðum um forsendur fjárlaga að ræða fyrst af öllu meginforsendur fjárlaga og það er sérstök ástæða til þess núna vegna þess að hér rétt undir lok þinghaldsins, þegar við erum í raun og veru að fara að ganga frá lokaafgreiðslu þessara frumvarpa, koma fram nýjar upplýsingar frá Hagstofu Íslands sem benda til þess að það sé a.m.k. rík ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af forsendum fjárlaga, ekki aðeins forsendum fjárlaga ársins 2015 heldur líka forsendum fjárlaga yfirstandandi árs, ársins 2014.

Við höfum tekið eftir því sem hefur verið ánægjulegt, öðrum þræði a.m.k., að hér hefur verðbólga verið lægri heldur en við höfum séð í langan tíma og það er auðvitað út af fyrir sig ánægjulegt að kominn sé á verðstöðugleiki. Það tókst náttúrlega í tíð síðustu ríkisstjórnar að koma býsna góðum böndum á verðbólguna og vera býsna nærri verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Nú er verðbólgan hins vegar komin umtalsvert undir verðbólgumarkmið og Seðlabankinn í tvígang á mjög stuttum tíma búinn að grípa til þess ráðs að lækka stýrivextina, augljóslega sem viðbrögð við bæði þeirri þróun og síðan trúlega áhyggjum manna af þeim hagvaxtartölum sem komu hér fyrir fyrstu níu mánuði ársins. Það sem þarf náttúrlega að gæta að er hvort þessi lága verðbólga, sem er orðin umtalsvert undir verðbólgumarkmiðinu, sé farin að endurspegla það að hér sé að draga úr vexti og einhvers konar stöðnunar gæti því að samfara þessu erum við að sjá tölur fyrir fyrstu níu mánuðina um hagvöxt sem er aðeins upp á 0,5%. Ástæðan fyrir því að það er ástæða til að vera vel á verði og gaumgæfa þetta vel er auðvitað sú að það eru dæmi um þróuð ríki sem hafa farið í gegnum það að verða mjög skuldsett þar sem heimili, atvinnulíf og hið opinbera eru mjög skuldsett, eins og til að mynda japanska dæmið, sem síðan aftur hefur haft þær afleiðingar að þó þetta séu vel efnuð ríki dregur mjög úr vexti sökum skuldsetningar. Menn fara að glíma við vanda eins og verðhjöðnun í stað verðbólgu.

Ég held að það sé allt of snemmt að fara að hafa áhyggjur af verðhjöðnun í okkar ágæta samfélagi en það er full ástæða til að skoða mjög gaumgæfilega hvað er að gerast og það er auðheyrt á viðbrögðum manna við tölum um hagvöxt að menn vilja illa trúa því að tölurnar fyrir fyrstu níu mánuði ársins séu réttar. Í raun og veru eru viðbrögðin þau að trúa ekki tölum. Það er að mörgu leyti skiljanlegt vegna þess að þær eru býsna alvarlegar ef þær eru réttar. Tölur Hagstofunnar um hagvöxt á fyrstu níu mánuðunum er ekki 3% eins og verið hefur í tíð síðustu ríkisstjórnar, meira og minna, ekki 2%, ekki 1% heldur 0,5% hagvöxtur. Í stjórnartíð þeirra flokka sem lögðu mikla áherslu á það að 3% hagvöxtur væri ekki nóg og það yrði aldeilis að drífa áfram hjól atvinnulífsins og koma þessum hagvexti í 5%, eða eitthvað þaðan af meira, í einum hvínandi hvelli eftir að þessir flokkar kæmust hér til valda, þá er reyndin sem sagt sú að ef þessar tölur eru á rökum reistar er hagvöxtur nánast enginn, 0,5% á fyrstu níu mánuðum ársins. Það þýðir auðvitað að landsframleiðslan á yfirstandandi ári yrði verulega minni en gert var ráð fyrir í fjárlögum, fyrir yfirstandandi ár, 2014, og þar með reikningurinn fyrir allt næsta ár 2015 kolrangur. Hvert prósent í landsframleiðslunni mundi vera tæpir 20 milljarðar og kannski fast að helmingurinn af því sem hefur áhrif á tekjur ríkissjóðs þannig að hvert prósent í þessu efni getur numið fyrir ríkissjóð hátt í 10 milljörðum kr. til eða frá. Það eru verulegar fjárhæðir í fjárlagafrumvarpi sem er með afgang upp á liðlega 4 milljarða kr.

Nú er það auðvitað óskandi að þeir sem neita að trúa tölunum hafi rétt fyrir sér og hér hafi vöxtur landsframleiðslunnar verið meiri en mælist á fyrstu níu mánuðunum og það séu einhverjar tæknilegar skýringar eins og tafir og annað þess háttar. En það er auðvitað um leið mikilvægt að við gerumst ekki aftur sek um það sem við urðum sek um fyrir ekki svo mörgum árum síðan, að neita að trúa tölunum og halda áfram að trúa því, alveg sama hvað tölurnar segðu, að allt væri í bullandi gangi, menn væru bara að græða á daginn og grilla á kvöldin. Ef það er að draga svona úr hagvexti er gríðarlega mikilvægt að bregðast hratt og vel við.

Nú sé ég að Seðlabankinn er í hópi þeirra sem telja að þetta séu frávik í mælingum og það er auðvitað ekki einsdæmi. Það hefur áður gerst að tölur Hagstofunnar hafa verið leiðréttar á síðari stigum og það hafa verið talsverð frávik í því. En það er samt erfitt að túlka seinni skattalækkun Seðlabankans öðruvísi en sem að einhverjum hluta til viðbrögð við áhyggjum af þessum litla og lélega hagvexti, viðbrögð bankans til að reyna að örva efnahagsstarfsemina með því að lækka vexti og hvetja til bæði neyslu og fjárfestinga í landinu til að auka landsframleiðsluna. Þetta er kannski ekki síst ákveðið áhyggjuefni vegna þeirrar skýrslu sem var að koma frá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, sem við Íslendingar höfum lengi leitað mikið til um ráðgjöf og sjónarmið á sviði efnahagsmála. Þar hefur litið dagsins ljós skýrsla í raun og veru um þessa vondu skattapólitík sem varð til hér á árunum í kringum 1980 í kringum stjórnmálamenn eins og Ronald Reagan og Margréti Thatcher, sem í raun og veru batt endi á langt velferðarskeið sem verið hafði frá því eftir síðari heimsstyrjöldina og fram eftir 8. áratugnum með mjög aukinni velsæld millistéttarinnar um allan hinn vestræna heim.

Sú skattapólitík sem þá ruddi sér til rúms hefur verið rekin áfram á forsendum einhvers einfaldleika en einfaldleikinn í henni er fyrst og fremst sá að hún gengur út á það að létta sköttum af þeim sem geta borgað skattana þ.e. hátekjufólki og efnafólki, og leggja þá á fólk sem á erfitt með að borga þá, þ.e. meðaltekjufólk og lágtekjufólk. Það er alveg afdráttarlaus niðurstaða í úttekt OECD að þessi skattapólitík, og ástæða til að hafa það í huga að það er einmitt sú skattapólitík sem núverandi ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks fer eftir, hafi neikvæð áhrif fyrir hagvöxt, fyrir aukningu á landsframleiðslu, neikvæð áhrif á það sem hún þykist snúast um, sem er að stækka kökuna. Ef maður vilji stækka kökuna, auka landsframleiðsluna og það sem til skiptanna er sé það einmitt vond pólitík að leggja af auðlegðarskatta, að lækka veiðigjöldin, að lækka hátekjuskattana, vegna þess að það letji vöxt í efnahagsstarfsemi. Það er í sjálfu sér tiltölulega auðskilið vegna þess að það er auðvitað þannig að það sem gefið er eftir af sjálfsögðum sköttum, af hagnaði í hinum efri lögum samfélagsins hefur tilhneigingu til að leita annað en í neyslu og fjárfestingu innan lands í alþjóðlegum heimi.

Hins vegar er það sem gert er til að bæta kjör meðaltekjufólks og lágtekjufólks í samfélaginu til þess fallið að auka neyslu og auka fjárfestingu innan lands. Það er það sem skapar vöxtinn í landsframleiðslu, það er fjárfesting og neysla innan lands. Þegar við skoðum hagvaxtartölurnar, þessar litlu og lélegu hagvaxtartölur fyrir fyrstu níu mánuði ársins, er 0,5% langt undir því sem jafnvel gerist í Evrópu, sem á þó við mikla erfiðleika að stríða. Þýskaland er að lækka hagvaxtartölur sínar úr 1,9% í 1,4% og þykir auðvitað ákaflega rýrt. 0,5% er talan sem við sjáum frá Hagstofunni í þessu efni og þegar við sjáum hana í samhengi við þessa nýju stjórnarstefnu er full ástæða til að fara mjög vandlega ofan í það hvort það geti verið að þessi tala sé á rökum reist eða a.m.k. hvort hagvöxturinn sé að minnka frá því sem allar spár hafa gert ráð fyrir og hvort það séu breytingar í stjórnarstefnu sem valda því. Það væri auðvitað mikil synd því að við Íslendingar höfum verið að auka landsframleiðsluna ár frá ári alveg frá hruni, stækka kökuna, og það er í raun og veru það uppbyggingarstarf í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem við erum að njóta ávaxtanna af núna í bættri afkomu ríkissjóðs, því að ríkissjóður er kominn í plús, og með þessum uppgjörsaðferðum sem nú er búið að lögfesta gagnvart Seðlabankanum er það raunar þannig að ríkissjóður var kominn í plús þegar í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar. Þeim áfanga var náð þar en það er gríðarlega mikilvægt að þessi vöxtur í landsframleiðslunni verði áfram því við eigum enn þá mjög langt í land með að vera komin með þau lífskjör sem eru í löndunum í kringum okkur. Til þess að við getum aukið kaupmátt fólksins í landinu þá verður það auðvitað ekki gert öðruvísi en að örva vöxt í efnahagsstarfseminni í landinu. Við hljótum að vona að þessar tölur Hagstofunnar séu einfaldlega rangar en við þurfum hins vegar að rannsaka það býsna vel og gæta að því hvort rangar áherslur í stjórnarstefnunni séu farnar að hægja á efnahagsstarfsemi í landinu, því að það er grafalvarlegur hlutur.

Annað af þeim efnum sem við þurfum að hugsa um og hafa dálitlar áhyggjur af núna í jólamánuðinum, þótt það sé leiðinlegt á aðventunni að vera að spilla henni með áhyggjum, er staðan í kjaramálum og þá ekki aðeins kjaramálum í heilbrigðiskerfinu, en fyrsta verkfall lækna í sögu landsins veldur okkur öllum miklum áhyggjum og ekki síst sjúklingum sem þurfa að treysta á kerfið og aðstandendum þeirra, heldur í raun og veru samfélaginu öllu. Það eru kjaramál flestallra stétta í landinu sem ástæða er til að huga sérstaklega að í þessari umræðu vegna þess að fram undan eru mjög viðamiklir kjarasamningar við fjöldamargar starfsstéttir og ríkisstjórnin er því miður óvenjulega reynslulaus. Það er þannig með ríkisstjórn Íslands, með fullri virðingu fyrir henni, að ég hygg að þar sé enginn ráðherra sem áður hefur setið í ríkisstjórn. Ég hygg að það sé í fyrsta sinn í sögu landsins sem þannig háttar til. Það gerðist því miður í upphafi kjörtímabilsins á síðasta ári að ríkisstjórnin átti tækifæri á því að ná saman við bæði ASÍ og SA um langtímakjarasamninga á vinnumarkaði en spilltu því og þess vegna var aðeins samið til skamms tíma. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að í þessu frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum séu ýmsar aðgerðir sem munu spilla fyrir gerð kjarasamninga síðar á vetrinum.