144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:43]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðuna. Þetta var mjög góð ræða og sérstaklega varðandi þessa bráðabirgðaspá Hagstofunnar. Ég er ekki í hópi þeirra sem lít fram hjá henni. Ég tek hana alvarlega og lít á hana sem ákveðið merki sem við þurfum að horfa á. Það má vel vera að hún reynist of dökk en við skulum ekki alveg útiloka að hún sé rétt, alls ekki.

Hv. þingmaður nefndi japanska dæmið, mikla skuldsetningu og stöðnun. Það er þá spurning hvort við höfum farið offari í skattlagningu á síðasta kjörtímabili og séum að bíta úr nálinni með það. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki lagt áherslu á að lækka skatta eins og hún vildi gera heldur lagt áherslu á annað og maður veltir því fyrir sér hvort það geti valdið þessari stöðnun.

Ég vildi líka spyrja hv. þingmann um kjaramál. Hér hefur mikið verið rætt um lækna: Vill hv. þingmaður til dæmis semja við lækna nokkurn veginn á þeirra nótum? Ef hann svarar því játandi, hvað gerist þá með aðra, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða o.s.frv. á spítölunum, svo að ég tali nú ekki um fólkið í eldhúsunum og ræstingafólk? Á að hækka það líka um 20–30%? Og hvað þá með kennara og aðra opinbera starfsmenn? Hvernig fara þá kjarasamningarnir í vetur milli aðila vinnumarkaðarins í janúar og febrúar, hvernig sér hann þetta dæmi allt saman ganga upp?