144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tel að síðasta ríkisstjórn hafi farið alveg að þolmörkum í skattlagningu. Það er ekki að ástæðulausu, hún tók við 200 milljarða halla á ríkissjóði, 1.000 millj. kr. mínus á dag og það var enginn í heiminum sem var tilbúinn til að lána okkur peninga til að halda áfram á þeirri braut. Það var enginn kostur á öðru en að þenja mörkin í skattlagningu að endimörkum. Það var gert.

Nú síðustu tvö árin hefur sem betur fer verið svigrúm til að draga þar úr. Það sem ég er að vekja athygli á hér er að ég tel að stjórnarmeirihlutinn hafi dregið úr skattlagningu á vitlausum stöðum. Hann hefði átt að draga úr skattlagningu á meðaltekjufólk og á láglaunafólk en ekki á útgerðarmenn og efnuðustu heimilin í landinu. Það hefur jákvæðari áhrif fyrir vöxt í efnahagsstarfseminni að létta sköttum af fólki með meðaltekjur og lægri tekjur en af hinum efnaðri.

Raunar er það gott fyrir efnahagsstarfsemina að beita samneyslu og eitt af því sem ástæða er til að hafa áhyggjur af er að samneyslan er aðeins að vaxa um 1%. Hún mætti sannarlega að ósekju vera að vaxa um 3% líka. Ég held að í tengslum við kjaramálin — af því að hv. þingmaður spyr um kjaramál lækna þá setja menn auðvitað fram kaupkröfur og síðan verður að semja um það og það er erfitt að gera það í ræðustól Alþingis. En ég tel að það standi upp á okkur hér í þinginu að vera ekki löngu búin að taka ákvörðun um uppbyggingu á Landspítalanum sem er fjárhagslega skynsamleg vegna þess að hún stuðlar að verulegri hagræðingu í rekstri spítalans og þar er rekstrarkostnaður auðvitað miklu þyngri en þáttur húsnæðisins. Með þeirri ákvörðun hefðum við bæði nýtt þann slaka sem enn er í efnahagsstarfseminni, aukið á vöxtinn og sent heilbrigðisstéttunum þau skilaboð að við höfum metnað til að byggja hér upp bestu heilbrigðisþjónustu í heimi.