144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:48]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég tel reyndar ekki að steinsteypa eða nýr spítali breyti neitt voðalega miklu um rekstrarafkomuna, eitthvað reyndar. Það hefur verið talað um það áður, tveir spítalar voru sameinaðir hér í Reykjavík og ég hef ekki séð hagnaðinn sem átti að fylgja.

En ég fékk ekki svarið um vandamálin við kjarasamningana. Ef menn samþykkja kröfur lækna þá fara þeir væntanlega varla að skilja láglaunafólkið eftir, þá þarf að hækka laun hjá því fólki og þá erum við komin með hækkun á 70% af rekstrarkostnaði spítalans, sem eru laun, upp á 10–20% og það eru óskaplegar upphæðir. Svo kemur allt opinbera kerfið til viðbótar og svo koma almennu kjarasamningarnir þannig að þetta er ekki einfalt.

En varðandi skattlagninguna þá hafa skattar vissulega verið lækkaðir og menn hafa fært rök fyrir því. Reyndar var auðlegðarskatturinn ekki framlengdur, hann var ákveðinn af fyrrverandi ríkisstjórn til bráðabirgða og rann út af sjálfu sér. Hefðu menn viljað hafa hann til lengri tíma hefði fyrrverandi ríkisstjórn átt að framlengja hann.

Aðrir skattar eins og á útgerðina — þar eru deildar meiningar um hvort ýmis útgerðarfyrirtæki geti staðið undir auðlegðargjaldinu en hin betur stæðu geta það örugglega og hv. þingmaður mun örugglega segja það.

Það sem ég held að standi eftir er það að sú mikla skattlagning og flækjustig sérstaklega, sem var lagt á atvinnulíf og einstaklinga, sé einfaldlega svo dýrt, ekki bara í tekjum af skattinum heldur í flækjustiginu sem kostar heilmikið.