144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fyrir að taka af mér ómakið við að segja að víst geti útgerðin borgað meira en það smáræði sem hún greiðir í veiðigjald í dag, enda er það augljóst hverjum manni.

Ég vil segja um flækjustigið að þar átta ég mig ekki alveg á því hvað hv. þingmaður er að tala um því að ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að einfalda skattkerfið. Hún hefur haft hér inni ýmsar breytingar, sennilega eru þær að nálgast 100, á skattkerfinu og það er alveg jafn flókið og það var þegar hún tók við.

Um auðlegðarskattinn þá veit þingmaðurinn að hann var settur á til jafnlengdar gjaldeyrishöftunum. Það var alltaf sagt að efnaðasta fólkið í landinu yrði að leggja sérstaklega af mörkum á meðan hér væri neyðarástand í efnahagsmálum. Og á meðan hér eru gjaldeyrishöft þá er neyðarástand í efnahagsmálum. Þegar núverandi ríkisstjórn ákvað að framlengja gjaldeyrishöftin þá átti hún auðvitað að framlengja auðlegðarskattinn til jafnlengdar, sjálfsagt mál. Þá hefði verið hægt að létta sköttum af meðaltekjufólki og láglaunafólki í landinu til að efla efnahagsstarfsemina og vöxtinn þar.

Ég vil síðan segja það um kjaramálin að það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er ekki auðvelt mál. Það er sannarlega flókið og erfitt viðureignar. Það þekkjum við hv. þingmaður sem höfum verið hér lengi og hann raunar miklum mun lengur en ég. En einmitt þess vegna var það svo hrapallegt að nýrri ríkisstjórn skyldi takast að spilla því á síðasta ári að gerðir væru langtímakjarasamningar í landinu. Afleiðingin af því urðu skammtímasamningar og síðan er ríkisstjórnin sjálf búin að semja við sumar stéttir um verulega miklar hækkanir umfram það sem samið var um á almenna markaðnum. Það þýðir að það koma bara aðrir hópar og heimta enn þá meira. Hættan er sú að á endanum verði átök víða á vinnumarkaði og það er bara heimatilbúinn vandi hjá ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.