144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal vil ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að vekja máls á þeim hagvaxtartölum sem hér hafa verið til umræðu. Eins og aðrir sem hafa tjáð sig í þessari umræðu er ég þeirrar skoðunar að það beri að taka þetta alvarlega þó að ég voni vissulega, eins og margir hagfræðingar sem hafa tjáð sig um þetta opinberlega, að þetta gefi ekki endanlega mynd af stöðu mála og að þarna sé um að ræða einhvers konar töf á því að vöxtur komi fram.

Mér hefur sýnst á umræðunni að hagfræðingar eigi bágt með að skýra hvernig stendur á því að þessar tölur endurspegla ekki sömu niðurstöður og þær spár sem í raun og veru allir aðilar sem fást við hagspárgerð fyrir Ísland hafa haldið fram eða hafa talið fram að þessu. Þarna er um að ræða tíðindi sem koma óvænt en þurfa að vera okkur til umhugsunar vegna þess að við getum ekki útilokað að um sé að ræða raunsanna mynd.

Í því sambandi langar mig til að spyrja hv. þingmann. Ég ætla ekki að fara í það að deila um fortíðina eða aðra slíka þætti en ég velti fyrir mér hvaða sjónarmið hv. þm. Helgi Hjörvar hefur varðandi það hvaða aðgerðir eða ákvarðanir sem við tökum hér á þessum vettvangi, ef það er svo að hagvöxtur á þessu ári er ekki nema 0,5%, hann telur líklegastar til að örva efnahagslífið með það að markmiði að vöxtur verði meiri.