144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að því marki að ég held að uppgjör þrotabúanna og afnám gjaldeyrishaftanna sé gríðarlega mikilvægt verkefni í þessu sambandi. Ég ætla ekkert að fara út í hártoganir um önnur atriði sem fram komu í ræðu hans, söguskýringar eða annað þess háttar, en ég held að við getum verið sammála um það að um gríðarlega mikilvægt verkefni er að ræða fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt efnahagslíf.

Ég vil hins vegar vera bjartsýnni en hv. þm. Helgi Hjörvar á það að þessum málum hefur miðað áfram og ég hef á tilfinningunni að við séum komin allvel áleiðis í undirbúningi þessara aðgerða, þótt vissulega hefðu þær mátt koma fyrr. Ég minni á að fjármálaráðherra hefur lýst því að undir áramót munum við fara að sjá til lands í þeim efnum og ég vona að þær spár reynist réttar.

Ég er að velta fyrir mér að öðru leyti hvort hv. þingmaður hefur afstöðu til þess hvað annað geti orðið til að ýta við hagvexti hér, ýta við fjárfestingu í atvinnulífinu, ýta við uppbyggingu í atvinnulífinu. Telur hv. þingmaður til dæmis að það sé skynsamlegt við þessar aðstæður að huga að frekari nýtingu á sviði orkumála og orkufreks iðnaðar? Telur hv. þingmaður að við eigum að skoða skattlagningu fyrirtækjanna með almennum hætti út frá þessum forsendum? Telur hv. þingmaður að slíkar aðgerðir gætu verið til þess fallnar að koma hjólum atvinnulífsins, svo maður noti nú frasana, á hraðari snúning með það að markmiði sem ég held að við þingmaður séum sammála um, að auka hagvöxt, auka landsframleiðsluna og tryggja það að meira verði til skiptanna þegar kemur að kaupmætti alls almennings í landinu?