144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Uppgjör þrotabúa föllnu bankanna er auðvitað stærsta málið í þessu vegna þess að þar er færi á því að fá afskrifaða í raun peningaprentun sem hér fór fram í bólunni fyrir hrun sem engin innstæða var fyrir, að fá kröfur niðurskrifaðar kannski á bilinu frá þeim 300 milljörðum sem Már Guðmundsson nefndi strax fyrir allnokkrum árum síðan og þeim 800 milljörðum sem snjóhengjan og hæstv. forsætisráðherra voru að tala um. Það eru verulegir fjármunir í niðurfærslum sem gætu haft umtalsverð áhrif á það að draga úr þeirri skuldsetningu sem gæti verið að hamla hér vexti.

Um hvernig við örvum best vöxt að öðru leyti er það auðvitað með trúverðugri framtíðarsýn og stefnu í peningamálum þjóðarinnar. Hún er því miður ekki fyrir hendi. Þess vegna er ekki mikið um aðila sem koma hingað og vilja fjárfesta í hinu íslenska krónuhagkerfi. Þess vegna var það að við hófum aðildarviðræður við Evrópusambandið, til að verða hluti af trúverðugri heild og alþjóðlegu fjárfestingarumhverfi sem menn höfðu áhuga á að koma inn í. Meðan við höfum ekki slíka stefnu er þess helst að vænta að við getum dregið hér inn dollarafjárfestingu í einhverjum greinum sem byggja á dollurum inn og dollurum út, eins og álverum og öðrum slíkum fabrikkum, en meðan þróun olíuverðs er eins og hún er hefur dregið mjög úr líkum á því að mikið verði af slíkum fjárfestingum að sækja á alþjóðamörkuðum, a.m.k. á allra næstu mánuðum og jafnvel missirum. Ég held því að fyrst og fremst það að gera upp þau mál sem við getum gert upp og klára að taka til í okkar eigin hagkerfi sé það sem upp á okkur standi og svo verðum við að treysta á útsjónarsemi og hugmyndir fólks í atvinnulífinu, kannski fremur en hér á stjórnmálavettvanginum, um hvernig í hinum almenna ramma er hægt að efla vöxtinn.