144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[19:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér ýmsar forsendur fjárlaga og ég ætla að nota hluta af tíma mínum að fara aðeins yfir þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að stytta atvinnuleysisbótatímabilið úr þremur árum í tvö og hálft ár. Nýjustu tölur segja að 1.300 manns gætu fallið af bótum um næstu áramót. Hvað bíður þessa fólks? Það er stór spurning. Við horfum upp á það að verið er að draga úr vinnumarkaðsaðgerðum með mjög markvissum hætti, aðgerðum eins og farið var í á síðasta kjörtímabili, Nám er vinnandi vegur og fleiri verkefnum. Það er verið að falla frá ýmsum góðum verkefnum eða draga úr þeim þar sem stutt er við bakið á fólki sem er atvinnulaust. Maður þekkir mörg dæmi um það þar sem fólk á atvinnuleysisbótum hafði tök á því að fara í framhaldsskólana, afla sér menntunar og styrkja sig í framhaldinu á vinnumarkaði. Slík verkefni skiluðu gífurlega miklum árangri. Og það er vissulega mikið áhyggjuefni hvað verður um þennan mannauð. Fólk er ekkert annað en mannauður og það fer eftir því hvort við virkjum þann mannauð, hvernig við beitum ýmsum aðgerðum, hvort við getum náð því besta fram í hverjum og einum einstaklingi, til að hæfileikar hans nýtist sem best á hvaða sviði sem það er. Allir hafa eitthvað fram að færa sem styrkir og eflir samfélag okkar ef við leyfum fólki að þroskast með þeim hætti sem við viljum sjá í velferðarsamfélagi.

Það er verið að tala um að hleypa ekki fólki 25 ára og eldri — það er ekki verið að tala um það, það er bara lagt til og ríkisstjórnin virðist ekkert ætla að bakka út úr því að 25 ára og eldri fái ekki aðgengi að bóknámi í framhaldsskólum frá og með áramótum. Þetta leggst allt á sömu sveifina, að gera fólki erfiðara fyrir ef það hefur verið atvinnulaust og ætlar að reyna að afla sér menntunar. Það er erfitt fyrir það fólk að sækja sér menntun sem kostar miklu meira en hún hefði gert ef það hefði haft aðgengi að framhaldsskólunum. Ekkert bíður þess nema fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Hún er eins og við vitum lægri en atvinnuleysisbætur þótt þær séu ekki til að hrópa húrra yfir, þær eru auðvitað ekki hugsaðar til langframa heldur á að gera allt til að styðja fólk aftur út á vinnumarkaðinn.

Sem betur fer var dregið úr skerðingum í starfsendurhæfingarsjóð á milli 1. og 2. umr. svo það er ekki eins afgerandi varðandi þann sjóð hvaða möguleika hann hefur til að styðja við bakið á fólki sem af einhverjum orsökum hefur fallið út af vinnumarkaði, hvort sem það er vegna örorku eða annars. En það er verið að skerða fjárframlög í framhaldsfræðslusjóð fyrir fólk með litla eða óformlega menntun. Það er einhvern veginn verið að ýta hópi fólks út á ysta jaðar og segja: Við berum enga samfélagslega ábyrgð sem þjóðfélag heldur verðið þið bara að bjarga ykkur sjálf og sækjast eftir bótum hjá okkur einhvers staðar annars staðar þegar allt er komið í óefni. En mér finnst rétt að rifja aðeins upp að atvinnuleysisbætur duttu ekki af himnum ofan. Ég kom aðeins inn á það í fyrri ræðu minni um þessi mál að það hafi þurft að berjast með blóði, svita og tárum fyrir þessum bótum. Ég held að það sé ekkert ofsagt í þeim efnum. Mér finnst vel við hæfi að minnast eins af baráttumönnum fyrir bættum kjörum verkafólks á miðri síðustu öld, Snorra Jónssonar, sem fallinn er frá, fyrrverandi forseta Alþýðusambands Íslands. Ég ætla að vitna í kveðju frá Alþýðusambandi Íslands vegna fráfalls Snorra Jónssonar, með leyfi forseta:

„Snorri Jónsson kom til starfa hjá Alþýðusambandi Íslands á miðjum sjötta áratug síðustu aldar þegar fast var sótt fram í réttindabaráttu launafólks. Rík réttlætiskennd og samkennd með verkafólki sem erfiðaði myrkra á milli en bjó samt við kröpp kjör var það sem fékk Snorra Jónsson til að helga sig verkalýðsbaráttu lungann úr starfsævinni. Snorri var nýkominn til starfa hjá ASÍ þegar sex vikna verkfallið svokallaða 1955 skall á í kjölfar langvarandi atvinnuleysis og mikillar kjaraskerðingar. Það einkenndist af hörku þar sem hvorki verkalýðshreyfingin né atvinnurekendur og ríkisvald hvikuðu. Fór svo á endanum að samið var um 10% kauphækkun og lengingu orlofs. Það sem hafði hins vegar mest áhrif til langs tíma var að ríkisstjórnin gaf fyrirheit um að samþykkja lög um atvinnuleysistryggingar. Fyrir það geta margir þakkað í dag.“

Þetta datt ekki af himnum ofan og kom ekki baráttulaust. Í framhaldi af þessu, með leyfi forseta:

„Þann 2. júní 1955 var skipuð nefnd til að semja frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar og varð frumvarpið að lögum 7. apríl 1956. Fyrstu stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skipuðu sjö menn, einn tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, einn af Vinnuveitendasambandi Íslands og fimm skyldu kosnir af sameinuðu Alþingi.“

Þetta er sagan í hnotskurn um tilurð Atvinnuleysistryggingasjóðs og atvinnuleysisbóta og hún sýnir að við sem störfum núna á hinu háa Alþingi eigum að bera virðingu fyrir þeim verkum sem baráttumenn og -konur þessa tíma stóðu fyrir. En nú gengur ríkisstjórnin í það að skera niður atvinnuleysisbótatímabilið án nokkurs samráðs við aðila vinnumarkaðarins og sýnir þeim aðilum og þeim sem voru í fararbroddi þeirrar baráttu að fá fram þetta mikla réttindamál algert virðingarleysi. Það er með ólíkindum hvernig ríkisvaldið hagar sér í þessum efnum. Maður er hugsi yfir því hvað ríkisstjórnin ætlar sér með einhvers lags aðkomu að komandi kjarasamningum á almenna vinnumarkaðinum eftir áramót. Ætlar hún kannski ekki að hafa neinar skoðanir á því hvernig þau mál þróast? Það hlýtur að skipta okkur öll máli hvernig þróunin verður á vinnumarkaði, hvort hér verða mikil átök eða hvort okkur tekst að ná einhverri þjóðarsátt eins og mikið er talað um kaup og kjör fólks, hvar í stétt sem það stendur. Ég spyr mig, af því að maður reynir stundum að hugsa fleiri en einn leik fram í tímann: Eru menn kannski að spila þessu út núna og ætla sér þá að geta dregið það í land sem eitthvert innlegg í kjarasamninga eftir áramót? Það eru stundum þekkt klókindi hjá mörgum að taka eitthvað frá fólki og segjast síðan ætla að láta það til baka og þá eru allir ánægðir vegna þess að fallið er frá einhverjum skerðingum. Þetta er taktík sem ég held að margir kannist við og þekki í samningaviðræðum um ýmsa hluti, hvort sem það er um kaup og kjör eða eitthvað annað. En mér hugnast ekki svona ruddaskapur gagnvart verkafólki í landinu og aðilum vinnumarkaðarins. Auðvitað ættu vinnuveitendur að hrökkva upp af standinum við þessa aðgerð af því að þetta kerfi er sjálfbært, það vill stundum gleymast. Hæstv. félagsmálaráðherra talaði meira að segja þannig fyrir nokkrum mánuðum að verið væri að stytta atvinnuleysisbótatímabilið vegna þess að frekar ætti að nýta þá peninga í almannatryggingakerfið. Það er einhver hugsunarvilla því að kerfið er sjálfbært og því er komið á með samningum milli aðila vinnumarkaðarins. Atvinnurekendur greiða með tryggingagjaldinu sínu í Atvinnuleysistryggingasjóð sem fjármagnar síðan atvinnuleysisbætur til þeirra sem þurfa á því að halda hverju sinni.

Mörgum þætti þetta nú vera nógu harkalega vegið að kjörum og samningum sem búið er að hafa mikið fyrir að ná, en til þess að bæta um betur ætlar ríkisvaldið líka án nokkurs samráðs að hætta að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða sjómanna og verkafólks, erfiðisfólksins í þessu landi. Til að draga aðeins fjöður yfir það á að fresta því um hálft ár. Eftir sem áður á sú aðgerð að koma til framkvæmda, að ríkið komi ekki inn til að jafna örorkubyrði. Það veldur því auðvitað að draga verður úr lífeyrisgreiðslum til hlutaðeigandi sjóðfélaga og skerðingin verður, þegar hún er gengin fram að fullu, 4,5%. Það munar um minna hjá því fólki sem erfiðað hefur í sínum störfum allt sitt líf, verkafólki og sjómönnum, nú á það von á þeirri köldu kveðju frá ríkisvaldinu að skerða eigi lífeyri þeirra um 4,5%. Eðlilega ber fólk sig saman við lífeyrissjóði í opinbera geiranum sem eru ríkistryggðir í bak og fyrir og þá dregur enn þá meira í sundur með því fólki og þeim sem eru hjá opinberu lífeyrissjóðunum sem hafa ríkisábyrgð og þurfa ekki að sitja undir svona skerðingum.

Eitt sem ég vil nefna í lokin er að fólkið sem þarna á í hlut á sér kannski ekki marga málsvara og ekki finnast þeir hjá ríkisvaldinu. Nú verður verkalýðshreyfingin að sýna hvers hún er megnug og láta ríkisvaldið ekki komast upp með þetta og við sem erum hér, hv. þingmenn á Alþingi, þurfum að sýna þessu fólki samstöðu og berjast gegn þessum aðgerðum.