144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[20:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það eina sem var gleðilegt við þessa ræðu hv. þingmanns var að hún gefur mér tilefni til þess, sem er sjaldgæfur atburður í mínu lífi á þessum síðustu og verstu tímum, að hrósa Framsóknarflokknum. Ég gat ekki skilið ræðu hv. þingmanns öðruvísi en svo að það hefði verið Framsóknarflokkurinn sem í ríkisstjórn stoppaði frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um að taka þetta inn í fjármálaráðuneytið. Sé svo, ja, þá hefði ég, ætti ég hatt, tekið hann ofan fyrir flokknum, ekki síst í ljósi þess að ég hef stundum verið dálítið harðhentur við hann síðustu daga.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé að verða hreinræktað klúður hjá ríkisstjórninni og ótrúlegur subbuskapur í stjórnsýslu fyrir utan það hvernig mönnum dettur í hug svona rétt ofan í jólin að senda starfsmönnum þessa gjöf, sem er sú að þeir vita ekkert um sína framtíð, mér er alveg sama þó að það séu ekki nema þrír og hálfur, þeir eiga sín réttindi. Og að það skuli gerast að við séum að ljúka þingstörfum án þess að ljóst sé hver verða afdrif heillar ríkisstofnunar, þó að hún sé lítil, það finnst mér fráleitt. Ég get ekki séð annað en að þetta sé vel til þess fallið að setja allt þinghald í uppnám ef þetta mál verður ekki leyst.