144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[20:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel að þær upplýsingar sem hér hafa komið fram séu þess eðlis að ekki sé hægt að ljúka þessum fundi í kvöld öðruvísi en að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra komi hingað til þings og geri því grein fyrir því hver verða afdrif Bankasýslunnar. Ég hef sjálfur að minnsta kosti í tveimur ræðum á undanförnum dögum, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon einnig í allnokkrum ræðum, óskað eftir því að fá upplýsingar um það með hvaða hætti á að fara með Bankasýsluna. Ég skildi fyrir nokkrum dögum, jafnvel vikum, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra á þann veg að hér kæmu fram með einhverjum hætti þingmál sem skýrðu það.

Nú liggur fyrir, hugsanlega á næstsíðasta degi þings, að málið er í sjálfheldu í ríkisstjórninni. Þá segi ég fyrir mína hönd og minna pólitísku vandamanna: Hingað og ekki lengra. Nú finnst mér að hæstv. ráðherra verði að koma og gera þinginu grein fyrir því hvernig hann ætlar að ráða örlögum þessa máls.