144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[20:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég óskaði eftir því áðan að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra væri kvaddur hingað til fundar til þess að gera þinginu grein fyrir því hver staða Bankasýslunnar er. Eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þá ítreka ég ósk mína. Það er algjörlega ljóst miðað við þær upplýsingar sem hér eru að koma fram að þessi ágæta stofnun ríkisins er í algjöru uppnámi. Það hefur komið fram við umræðurnar að frumvarp eða þingmál sem hæstv. ráðherra hafði lofað þinginu til þess að gera grein fyrir því hvað ríkisstjórnin er að hugsa með framtíðina er stopp í ríkisstjórn. Og nú upplýsir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon það líka að hæstv. fjármálaráðherra hafi í umræðu fyrr í dag játt því að óhönduglega væri farið með stjórnsýslu ríkisstjórnarinnar gagnvart stofnuninni.

Ég hef mörgum sinnum á kjörtímabilinu lýst áhyggjum mínum vegna framtíðar sparisjóðanna og sparisjóðafjölskyldunnar. Hún er í ágætum höndum Bankasýslunnar sem hefur lagt fram mjög jákvæðar og að mér þykir góðar hugmyndir um það hvernig eigi að haga þeim málum í framtíðinni. Og þá gerist það, þegar búið er að draga upp teikningar af því hvernig eigi að fara með þau mál, að hæstv. fjármálaráðherra kemur og ætlar bara að leggja stofnunina niður. Maður hlýtur að spyrja: Hvað vakir þar á bak við?

Ég segi það og ítreka það aftur fyrir mína hönd, eins og ég sagði áðan, og minna pólitísku vandamanna og þá á ég við hv. þingmenn Samfylkingarinnar, að mér finnst ekki koma til greina að þing haldi heim til jólahalds nema þetta mál verði upplýst. Eftir þann fund sem ríkisstjórnin átti og gat ekki leyst þetta mál, held ég að það sé sanngjörn ósk, að ég ekki segi krafa, að hæstv. fjármálaráðherra geri þinginu grein fyrir stöðu þessa máls eigi síðar en í kvöld. Ég spyr hv. þingmann: Hvað finnst honum um þá kröfu?