144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[21:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að um algera nýlundu sé að ræða í máli af þessu tagi og sérstaklega þegar kemur að samskiptum við aðila vinnumarkaðarins og eftir atvikum sveitarfélögin um þessi mál, um atvinnuleysisbótamálin eða vinnumarkaðsmálin. Auðvitað voru oft átök og sviptingar og tekist á um stórar tölur á síðasta kjörtímabili, en við lentum því alltaf að lokum í sæmilegri sátt. Það tók til dæmis í þegar verið var að hækka tryggingagjaldið samhliða framlengingu kjarasamninga og það voru ekki léttar aðstæður að bæði var verið að reyna að ná samningum en það þurfti líka að hækka tryggingagjaldið.

Ég get nefnt sem dæmi hvað ríkið gerði þá, ég ber mesta ábyrgð á því, því að ég féllst á að ríkið skyldi greiða tryggingagjaldshækkunina fyrir sveitarfélögin út það ár. Ríkið tók því á sig kostnað vegna hækkaðs launakostnaðar sveitarfélaganna vegna tryggingagjalds á um það bil hálfu ári. Og ólíkt höfumst við að. Það var til þess að ná öllum saman að borðinu og sveitarfélögin féllust á þá framlengingu samninga sem þá var uppi, en núna ákveður ríkisstjórn hins vegar einhliða að skerða atvinnuleysisbótatímabilið og henda kostnaði upp á 500 milljónir í sveitarfélögin án þess að tala við þau. Ég hélt nú að þeir væru rómsterkari en mér hefur virst þeir vera undanfarna daga, vinir mínir bæði hjá sveitarfélögunum og á vinnumarkaðnum, mér hefur fundist tísta fulllágt í þeim í ljósi þessarar framkomu.

Það ótrúlegasta af öllu er það að þessi svokallaði sparnaður eða niðurskurður upp á 1.130 milljónir er bara bókhaldslegt aðhald. Félagsmálahluti velferðarráðuneytisins virðist hafa valið þá leið að taka út aðhaldskröfuna á sinn málaflokk fyrst og fremst í formi þess að stytta atvinnuleysisbótatímann um hálft ár, svo hátt risið sem er nú á því. En tryggingagjaldið er ekki lækkað. Þar af leiðandi fær atvinnulífið ekki að njóta þess og ríkissjóður í reynd (Forseti hringir.) ekki heldur, vegna þess að það sem gerist í staðinn er sjóðsöfnun hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, þannig að mér er þetta mál í raun og veru óskiljanlegt.