144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[21:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka svarið. Ég tel að ég og hv. þingmaður túlkum einmitt þessa aðgerð rétt, hún er eingöngu skilaboð til langtímaatvinnulausra um að þeir séu einhvers konar annars flokks hópur í íslensku samfélagi og það sé sjálfsagt að senda þá á sitt sveitarfélag.

Ég er sammála því að það hefur frekar lítið heyrst í Samtökum atvinnulífsins og sveitarfélögunum. Á fundi velferðarnefndar kom þó fram mikil óánægja hjá sveitarfélögunum með að ekki hefði farið fram kostnaðarmat á áhrifum frumvarpsins á sveitarfélögin. Ég hef kallað eftir því með fyrirspurn til fjármálaráðherra og ekki fengið nokkur svör þó að liðið sé vel á annan mánuð.

Þá að jöfnun örorkubyrði, ég er mjög ánægð með að það hafi orðið þó einhver breyting á því en ég velti fyrir mér: Hafa verið lagðir fram reikningar á því í nefndinni hvaða áhrif þetta hafi á lífeyrisréttindi í almennu sjóðunum?