144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[21:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég má stela örfáum sekúndum til að svara hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, af því að um flokkssystkini er nú að ræða. Spurt var: Fengum við í nefndinni einhverjar upplýsingar um áhrifin á lífeyrissjóðina ef menn færu alla leið með að þurrka upp greiðslurnar vegna jöfnunar á örorkubyrði? Já, við fengum það, við fengum t.d. mjög góða umsögn frá Lífeyrissjóðnum Stapa, sem er auðvitað hinn stóri lífeyrissjóður á landsbyggðinni, lífeyrissjóður Norðurlands og Austurlands. Það er erfiðisvinnumannasjóður. Þar er mikið af bændum, sjómönnum, byggingarverkamönnum og iðnaðarmönnum, bílstjórum og öðrum slíkum, sem eru með hátt nýgengi örorku og háa slysatíðni. Það er ljóst að slíkur sjóður gæti þurft að skerða réttindi sjóðfélaga sinna um allt að 5%, það er bara þannig. Það er dauðans alvara, og félagsmenn í slíkum sjóðum sætu þá uppi með mun lakari lífeyrisréttindi en aðrir.

Varðandi styttingu atvinnuleysisbótatímans held ég að við verðum líka að hafa áhyggjur og horfa yfir málaflokkinn í heild. Hvað er ríkisstjórnin að gera á tengdum sviðum? Það er allt saman neikvætt, ég sé hvergi neitt jákvætt. Ég sé ríkisstjórnina hvergi bæta í eða brydda upp á neinu nýju í þágu þessa hóps. Það er allt niður á við. Það er dregið úr vinnumarkaðsaðgerðum. Vinnumálastofnun er skorin þannig að hún er að segja upp fólki og hún er að loka starfsemi sinni á heilum svæðum. Hún er að loka í Þingeyjarsýslum og hverfa af starfssvæði Framsýnar með alla sína þjónustu. Það er verið að loka framhaldsskólunum, bóknámshluta þeirra, fyrir fólki eldra en 25 ára, þannig að sú leið er þá ekki heldur fær fyrir þann hluta þessa hóps sem ætti þarna kannski möguleika á því að nota tíma sinn til náms. Allir þekkja hvernig átti að meðhöndla VIRK Starfsendurhæfingarsjóð, þó að það sé sýndur einhver vottur með því að setja inn 200 milljónir og það er kölluð einskiptisgreiðsla. Þá er samkomulaginu um fulla þátttöku ríkisins ýtt til hliðar. Þegar þetta er allt saman skoðað saman er þetta mjög bágborin frammistaða.