144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[21:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og oft hefur komið fram í þessari umræðu ræðum við frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015. Ég ætla í ræðu minni fyrst og fremst að ræða um þau mál sem lúta að velferðarnefnd, en við veittum umsögn um frumvarpið, bæði minni hluti og meiri hluti í sitt hvoru lagi. Ég ætla að fjalla um tvo þætti, styttingu á rétti til atvinnuleysistrygginga og svo breytingar á lögum um sjúkratryggingar sem varða greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði.

Það hefur verið rætt þó nokkuð um þessi mál hér og við höfum bent á varðandi atvinnuleysistryggingarnar að það er fordæmalaust, a.m.k. á síðustu áratugum, að einhliða breytingar á réttindum til atvinnuleysistrygginga séu gerðar af hálfu ríkisvaldsins án samráðs við aðila vinnumarkaðarins og þá fyrst og fremst auðvitað verkalýðshreyfinguna.

Lög frá 2006 um atvinnuleysistryggingar kváðu á um þriggja ára rétt til atvinnuleysistrygginga. Áður hafði hann verið fimm ár en eftir mikla vinnu, yfirlegu og samninga var ákveðið að stytta tímann niður í þrjú ár, enda taldist það vera ólíklegt að fólki tækist að finna vinnu eftir að hafa verið atvinnulaust mikið lengur en það, en jafnframt var komið á virkum vinnumarkaðsaðgerðum.

Núna er þungt hljóðið í verkalýðshreyfingunni vegna ýmissa þátta fjárlagafrumvarpsins og þetta er einn af þeim þáttum sem sérstaklega er tilgreindur t.d. í ályktun miðstjórnar ASÍ. Þar er bent á að erfitt verði að ná til lands í komandi kjaraviðræðum og að samninga- og samtalsleiðin sé augljóslega ekki vilji ríkisstjórnarinnar heldur þurfi að láta hart mæta hörðu.

Á sama tíma og verið er að skerða réttindi fólks sem er langtímaatvinnulaust — hlutfallslega er flest þetta fólk sem verður fyrir barðinu á þessum niðurskurði ríkisstjórnarinnar á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum — er verið að draga úr framlögum til vinnumarkaðsaðgerða og skerða og taka fyrir réttindi fólks yfir 25 ára aldri til þess að fara í framhaldsskóla. Það má því segja að ekki sé eingöngu verið að láta atvinnulausa gjalda langt umfram ýmsa aðra heldur er verið að einkavæða vanda fólks sem horfið hefur frá námi án fullnaðarprófs. Fólk þarf þá að sækja í einkaskóla sem eru með dýr skólagjöld fyrir önn í frumgreinanámi, og ef fólk treystir sér út í þær skuldbindingar þá tekur það lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Ríkið fjármagnar þau að einhverju leyti með niðurgreiðslu vaxta en það er ógegnsætt og ég held að það sé afskaplega óheppileg þróun að einkavæða vanda fólks með þessum hætti og að ríkið taki ekki fjárhagslega ábyrgð á því að koma því fólki til mennta sem áhuga hefur á því.

Þá má benda á að framlög til símenntunarstöðva eru mun lægri á höfuðborgarsvæðinu en víðs vegar um landið þannig að á sama tíma og lýst er yfir miklum vilja til þess að flytja stofnanir héðan af höfuðborgarsvæðinu er ekki litið til þess að hér er hlutfallslega mikið atvinnuleysi miðað við ýmsa aðra landshluta og að hér er minna fjármagn til símenntunarstöðva. Ég mundi vilja túlka það sem svo að þessi skerðing lýsi vantrú á getu fólks til þess að komast út úr atvinnuleysi og lýsi fullkomnum skorti á virðingu fyrir stöðu þeirra sem hafa misst atvinnu sína.

Þá komum við að breytingum á lögum um sjúkratryggingar. Það er nú búið að gera breytingar, því að hækka átti viðmiðunarfjárhæðir í greiðsluþátttökukerfi almennra lyfja. Fyrir nefndinni kom þó ekki fram hvað áætlað væri að hækka þakið í greiðsluþátttökunni mikið. Jafnframt var bent á að það væri alls óvíst hvort sparnaðurinn af þessum niðurskurði yrði minni en áætlað var eða jafnvel miklu meiri. Yfirsýnin yfir það kerfi sem verið var að fikta í var afskaplega takmörkuð eða fjárhagslegum áhrifum af því að fikta í kerfinu. Það var því hætt við þetta, var okkur sagt á nefndarfundi, og sagt að þessu ætti að ná fram með auknu eftirliti landlæknis. Við vorum einmitt á þeim tíma í nefndinni að fara yfir lyfjaeftirlitsmál og það kom fram ítrekað í bréfum frá landlækni að embættið taldi sig ekki hafa viðhlítandi lagaheimildir og skorta fjármuni til eftirlitsins. Það kom fram í bréfi frá ráðuneytinu að það teldi að ekki skorti lagaheimildir en það óskaði þó eftir því að embættið kæmi frekari ábendingum til sín. Nægar voru þær nú fyrir en þeir vildu halda áfram þessum bréfaskriftum. Við í nefndinni munum auðvitað fylgja því eftir og sjá hver niðurstaðan verður um eftirlitsheimildir landlæknis og fjármuni til að geta sinnt þeim.

Að lokum varð þetta að mótvægisaðgerð. Í staðinn fyrir að auka kostnaðarþátttöku sjúklinga um 200 milljónir í almenna lyfjakerfinu verður hún hækkuð um 50 milljónir. Það kemur ekki alveg fram hvar þær 50 milljónir eiga að falla til en þær eru þarna einhvers staðar á milli skips og bryggju sem áætlaður sparnaður. En það er náttúrlega mjög snautlegt að búa til úr niðurskurði, sem átti að vera 200 milljónir en varð 50, einhvers konar mótvægisaðgerð við hækkun matarskatts. Ég skil eiginlega ekki hverjum datt sú snilld í hug. Það er einhver sem er dálítið óforskammaður.

Þá eru það S-merktu lyfin. Undir greiðsluþátttökukerfi lyfja á að setja S-merkt lyf sem veitt eru utan heilbrigðisstofnana. Það er mjög erfitt að fá upplýsingar um hvernig þetta eigi að fara fram en það kom fram fyrir nefndinni, eins og við í minni hlutanum förum yfir í áliti okkar, að það hefði ekki verið greint nákvæmlega hvernig greiðslubyrðin mundi breytast miðað við mismunandi sjúkdóma og mismunandi hópa sjúklinga. Þarna er bara skotið út í loftið og þetta snertir fjárreiður og hagsmuni fólks sem alla jafna er mjög veikt fólk með alvarlega sjúkdóma. Þá kom fram að samráð hefði ekki verið haft við lyfsala eða mjög lítið og þeir vildu ekki þessa aðgerð, töldu það erfitt að sitja uppi með rýrnun á þessum dýru lyfjum og töldu sig ekki geta einir tekið á sig þá áhættu í rekstri, sem þýðir auðvitað að kostnaður til sjúklinga mun aukast.

Nú skulum við setja þetta í samhengi við lyfjakostnað ríkisins, því að auðvitað er greiðsluþátttaka sjúklinga umtalsverð. Kostnaður ríkisins vegna lyfja á árinu 2015 samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, bæði í almennum lyfjum og S-merktum lyfjum, á að verða 14.685 milljónir. Það á því að velta 1% af þeim kostnaði yfir á sjúklinga, allra veikustu sjúklingana og það veit enginn alveg nákvæmlega hvernig það kemur til með að líta út.

Tölum um lyfjakostnað. Það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu á bls. 384 að kostnaður vegna almennra lyfja hjá ríkinu árið 2013 hafi verið rúmir 8,2 milljarðar og vegna S-merktra lyfja tæpir 6,4 milljarðar. Þetta eru samtals 14,6 milljarðar. En hver á þessi kostnaður að verða árið 2015? Hann á verða tæpir 14,7 milljarðar, þannig að hann hækkar á milli tveggja ára, hafði hækkað árið á milli, ekkert mjög mikið, en nú á að draga úr því. Lyfjakostnaður ríkisins, og þetta eru tölur úr ríkisreikningi, á þannig að hækka um 80 milljónir á milli tveggja fjárlagaára, frá 2013, borið saman við frumvarpið 2015. Og þetta er raunlækkun, því að verðlag hefur jú hækkað á þessum tveimur árum en þetta er sett fram á verðlagi hvers árs. Ríkisstjórnin sem hrósar sér yfir því að vera að setja meiri fjármuni en nokkurn tíma hafa verið settir í Landspítalann, þó að það sé sama hlutfall vergrar landsframleiðslu og var 2009, er að ná niður kostnaði á ýmsum öðrum stöðum, t.d. í lyfjum með mjög grófum hætti og þarna er um verulega raunlækkun á kostnaði ríkisins af lyfjum að ræða.

Nú er auðvitað jákvætt ef tekst að ná niður kostnaði af því að betri samningar nást við birgja og ríkið getur útvegað sér lægri verð, það er mjög jákvætt. Við eigum auðvitað að stefna að því og vinna áfram á þeirri braut sem hefur verið gert undanfarin ár, frá því fyrir hrun. En við getum ekki lækkað raunkostnað ríkisins í lyfjakostnaði með því að velta honum yfir á sjúklinga. Þegar nýja greiðsluþátttökukerfið var sett á þá stóð til, þegar ríkissjóður mundi rétta úr kútnum, að fjölga þeim lyfjum sem féllu undir greiðsluþátttökukerfið, sem nytu niðurgreiðslu af hálfu ríkisins. Þar var sérstaklega tilgreint pensilín fyrir fullorðna, þannig að fullorðið fólk sem þarf að taka pensilín, oft tengt ýmsum aðgerðum og meðferðum, þyrfti ekki eitt að bera kostnað af þeim lyfjaflokki. Núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra hefur haldið því fram að alltaf hafi verið ætlunin að setja S-merktu lyfin þarna undir. Ég hef komið að þessum málum þó nokkuð í gegnum tíðina, án þess að vera einhver sérstakur sérfræðingur í þeim, og mig rekur ekki minni til þess. Það getur vel verið að einhver hugsun hafi verið um þetta einhvern tíma í upphafi en það er þá mjög langt síðan og kannski einmitt vegna þess að það eru ýmsir tæknilegir ágallar á því og að í ljós hafi komið — ég ímynda mér það, því að ég man bara ekki eftir að þetta hafi verið ætlunin — að kostnaðurinn yrði allt of mikill fyrir sjúklinga. Það er því ekki söguskýring sem ég kannast við. Eigi hún við rök að styðjast er sú hugmynd löngu farin út af borðinu.

Það er ýmislegt sem ég á eftir ósagt um kostnað í heilbrigðiskerfinu almennt. Það á kannski líka betur heima í fjárlagaumræðunni, 3. umr., sem við förum inn í fljótlega. En ég harma að ekki hafi verið dregin til baka skerðing á réttindum og lífskjörum fólks sem hefur verið langtímaatvinnulaust og ég harma að það eigi að auka greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði.