144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[21:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér spunnust fyrr í kvöld umræður um Bankasýslu ríkisins. Það stafaði af því að fram komu upplýsingar frá einum af nefndarmönnum í hv. fjárlaganefnd. Það varð til þess að mönnum, þar á meðal mér, þótti sem þessi mál væru í nokkru uppnámi og mikil þörf væri á því að hæstv. fjármálaráðherra mundi skýra stöðu þessa máls. Ég óskaði því eftir því að hann kæmi hér til þings og honum til hróss þá er hann mættur. Ég tel að það mundi greiða mjög fyrir þingstörfum ef hæstv. fjármálaráðherra mundi gera grein fyrir málinu. Þá hygg ég að allir gætu hugsanlega í kvöld gengið sáttir til náða hvað svo sem morgundagurinn ber í skauti sínu.