144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[22:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Við ræddum málefni Bankasýslunnar stuttlega hér undir liðnum um störf þingsins í dag. Þannig er mál með vexti að í lögunum um Bankasýsluna var gert ráð fyrir því að hún starfaði út þetta ár en vissulega var þá gert ráð fyrir því að hún mundi að mestu hafa lokið meginhlutverki sínu á árinu 2014. Eins og við vitum eru stórir eignarhlutar, reyndar langstærsti eignarhlutinn, þ.e. eignarhluti ríkisins í Landsbankanum, í Arion banka og í Íslandsbanka, enn óseldir. Þó er það svo með einn þessara eignarhluta að bankinn hefur, í tilfelli Íslandsbanka, óskað eftir að innleysa hlut ríkisins.

Hvað sem því líður þá hefur meginhlutverk Bankasýslunnar undanfarin ár verið fólgið í því að hafa eftirlit og umsjón með eignarhlutum ríkisins, en það hefur minna verið í virkri sölumeðferð á þessum hlutum. Mikill kraftur hefur farið í það hjá stofnuninni að fylgja eftir breytingum í sparisjóðakerfinu í landinu og ríkið hefur þar þurft að stíga inn á nokkrum stöðum og væntanlega er enn eftir einhver breytingaferill í sparisjóðakerfinu í landinu, en í dag er það þannig að Bankasýslan er í raun og veru tveir starfsmenn og síðan sá þriðji sem er í skjalavörslu og upplýsingaskjölun, og fyrir stofnuninni eru síðan þrír stjórnarmenn, þ.e. jafnmargir í stjórn og starfa hjá stofnuninni.

Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar lagði til að í stað þess að stofnunin starfaði út árið 2014 yrði lögð á það áhersla að stofnunin mundi hætta eftir þrjá ársfjórðunga á árinu og í framhaldi af því var undirbúið frumvarp til að ákveða hvað ætti að taka við eftir að stofnunin léti af störfum. Þar eru kannski einkum tveir hlutir sem þarf að horfa sérstaklega til. Það eru annars vegar þau armslengdarsjónarmið sem hafa verið grundvöllur Bankasýslunnar fram til þessa og síðan samspilið við lög um sölu eignarhluta ríkisins. Um þessa þætti er fjallað í frumvarpi sem ég hef kynnt fyrir ríkisstjórninni en við höfum ekki enn þá afgreitt hér til framlagningar á Alþingi.

Nú háttar þannig til að við gerðum ekki ráð fyrir því í fjárlögunum að Bankasýslan mundi starfa á næsta ári, heldur mundi taka við nýtt fyrirkomulag. Þessi skörun er á vissan hátt óheppileg en það er samt mikilvægt að halda því til haga að það er ekki ætlun okkar að gera neina grundvallarbreytingu á armslengdarhugsuninni í framkvæmd. Í því sambandi er ágætt að taka sem dæmi það hvernig menn sjá fyrir sér að verði til dæmis skipað í stjórnir þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkið á einhverja eignaraðild að. Í flestum grundvallaratriðum er áfram verið að hugsa það á sama hátt. Það er hins vegar mín skoðun að það sé tæplega svo, og reyndar er ég hreinlega þeirrar skoðunar að svo sé ekki, að það réttlæti starfsemi sérstakrar stofnunar með þriggja manna stjórn að halda utan um þessi verkefni sem hér er um að ræða. Þess vegna hefur verið unnið eftir þessari upphaflegu áætlun um að Bankasýslan lyki sínum störfum og við tæki nýtt fyrirkomulag þar sem þó væri haldið í þessi grundvallaratriði um armslengdina og gegnsæi við mögulega sölu eignarhluta.

Á fundi sínum í dag var fjallað um þessa tímalegu skörun og samspilið við fjárlagafrumvarpið hjá fjárlaganefnd. Eins og fram hefur komið er ekki gert ráð fyrir fjárheimildum fyrir stofnunina á næsta ári en á móti hafði verið gert ráð fyrir því að fjármálaráðuneytið hefði fjárheimildir til að hafa úr fjármunum að spila í nýju fyrirkomulagi. Ég met það svo að við þurfum fyrir lok 3. umr. að svara því hvernig eigi þá að fara með — þetta séu réttmætar ábendingar sem hafa hér fram komið — fyrstu mánuði nýs árs þar til nýtt fyrirkomulag hefur tekið gildi. Tími ætti að gefast til þess undir umræðunni sem sett er á dagskrá á morgun.

Það er tiltölulega einfalt mál, það eru þá einhverjar lágmarksfjárveitingar til að halda úti þeirri litlu starfsemi sem þarna er. (Gripið fram í.) Já, í því fyrirkomulagi sem gildir í dag. En ég vil líka taka fram að það skiptir máli að þannig sé búið um þessa hluti að sú þekking sem hefur safnast hjá þeim starfsmönnum sem þarna eru nýtist okkur áfram í þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir.

Næstu stóru mál fyrir okkur eru í fyrsta lagi að taka afstöðu til mögulegrar innlausnar á Íslandsbankahlutnum. Það er síðan að ákveða hvort við fylgjum eftir áformum um sölu á allt að 15% hlut á næsta ári í Landsbankanum, með hvaða hætti við mundum gera það. Við þurfum að ræða í því samhengi hvað ætti að fylgja í kjölfarið. Við gerum ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að selja á næstu tveimur árum allt að 30% hlut í Landsbankanum. Sú sala getur í mínum huga ekki átt sér stað nema við fylgjum því eftir með skýrum svörum um það hvað taki svo við, vegna þess að mögulegir kaupendur, áhugasamir aðilar um að koma inn í Landsbankann sem eigendur, munu vilja svör um það hvað ríkið hyggst fyrir varðandi framtíðina með tilliti til frekari sölu á eignarhlut ríkisins, hversu stóran hlut ríkið vill eiga í bankanum til langs tíma, hvað ríkið hyggst fyrir varðandi mögulega skráningu á hlut í bankanum o.s.frv. Í mjög stuttu máli er það mín skoðun að ríkið eigi áfram að eiga verulegan hlut í Landsbankanum en geti á komandi árum haldið áfram að minnka við eignarhlut sinn þar en verði samt sem áður megineigandi bankans, stærsti eigandinn — kannski er ekki rétt að nota kjölfestufjárfestishugtakið hér, en ekki ættu að vera uppi nein áform um að ríkið hverfi alveg út úr Landsbankanum á næstu árum sem eigandi.

Svo er það auðvitað hluturinn í Arion banka líka, spurning hvort hægt er að koma honum í verð. Ég hef skilið það á þann veg að þvert á alla flokka sé nokkuð góð samstaða um að ríkið eigi að losa sig við eignarhlutina í bæði Íslandsbanka og Arion banka — og við skulum hafa í huga að þetta eru ekki mjög flókin verkefni. Þetta eru tiltölulega litlir eignarhlutar og ef við fylgjum þeim lögum sem sett hafa verið um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum þá erum við að fara inn í mjög opið og gegnsætt ferli þar sem einn viðkomustaðurinn í ferlinu er einmitt þingið og aðalatriðið kannski fyrst og fremst að búa þannig um hnútana að ríkið fái hámarksverð. Þar getur tímasetningin skipt sköpum.

Landsbankamálið er hins vegar langstærsta einstaka verkefnið okkar og við erum kannski ekki komin mjög langt í umræðunni hér á þinginu um það hvað eigi að fylgja í kjölfar þess að við seljum þennan 30% hlut. Þó hefur það verið þannig mörg undanfarin ár að það hefur staðið opin heimild fyrir ríkið til að losa um eignarhlut sinn í bankanum. Reyndar fékk heimildarákvæðið í 6. gr. aðeins nýtt inntak eftir að ríkið bætti við eignarhlut sinn vegna þess að greinin hefur fjallað um það að selja það sem er umfram 70% og áður var það minna sem var umfram 70% en er í dag.

Síðan er það sparisjóðakerfið sem ég minntist stuttlega á hér áðan. Þar er full ástæða til að huga að hagsmunum ríkisins sem eiganda í sparisjóðakerfinu en ekkert síður ástæða til að fylgjast grannt með því hvernig sparisjóðakerfið stendur gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum og hvaða möguleikar eru í stöðunni fyrir það til framtíðar, hvort eitthvað er hægt að gera til að styrkja sparisjóðakerfið og tryggja með því aukna fjölbreytni í framboði og bjarga störfum. Það eru jú fjölmörg störf í húfi, ekki síst á landsbyggðinni þar sem sparisjóðirnir eru fyrst og fremst í dag; starfsemi þeirra er orðin heldur fábrotin hér í þéttbýlinu, að minnsta kosti samanborið við það sem áður var. Þar finnst mér, út frá hagsmunum fjármálakerfisins í heild sinni, að tryggja meiri fjölbreytni og samkeppni á markaði, og eins út frá eigendahagsmunum ríkisins í sparisjóðakerfinu, full ástæða til að gera úttekt og fylgjast vel með því hvað er fram undan á því sviði fjármálakerfisins.

Ég held að þetta sé svona í örstuttu máli staðan. Við erum í Bankasýslunni með eins konar örstofnun þar sem eru þrír starfsmenn, það eru þrír í stjórn. Verkefnin eru tiltölulega einföld. Við höldum sem sagt á hlutum í nokkrum sparisjóðum, við erum með minni hluta í Íslandsbanka þar sem búið er að bjóða innlausn á hlutnum. Við erum með lítinn hlut í Arion banka sem er mest lítið að gerast með, meðal annars út af eigendastrúktúrnum þar, og svo erum við með þessi áform til næstu tveggja ára varðandi Landsbankann og í gildi eru lög og engin áform um að fara að breyta því fyrirkomulagi sem skrifað hefur verið inn í lög til þessa um opið og gegnsætt ferli þegar kemur til sölunnar. En þar eigum við kannski fyrst og fremst eftir að leggja betur línurnar um það sem við tekur og hvað ríkið hyggst fyrir varðandi sinn eignarhlut til lengri tíma.

Um þessi mál er fjallað í þessu frumvarpi sem ég hef kynnt í ríkisstjórn, en varðandi þær vikur og mánuði sem eru fram undan þar til nýtt fyrirkomulag tekur gildi þá eru það réttmætar ábendingar sem hér hafa komið fram að þetta skarast ekki vel í tíma. Það er óheppilegt að þetta tómarúm skuli myndast. Um það fjallaði fjárlaganefnd í dag, fékk ákveðnar upplýsingar, og mér finnst líklegt að við þurfum að bregðast við því undir 3. umr.