144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[22:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru þau svör sem ég vænti frá hæstv. fjármálaráðherra. Ég get þá alla vega sagt það fyrir mína hönd að ég mun ganga rólegur til náða í kvöld. Eins og hæstv. ráðherra segir hyggst hann koma hér síðan með þingmál til þess að kynna með hvaða hætti hann vill haga þessum málum til framtíðar.

Það er náttúrlega algjörlega borin von að slíkt þingmál verði lagt fram og keyrt í gegn fyrir lok þessa árs. Ég hlakka hins vegar til þess að taka þátt í þeirri umræðu þegar að því kemur en segi það algjörlega skýrt að frá mínum bæjardyrum finnst mér ekki koma til greina að þetta mál verði á einhvern hátt að verkefni stofnunarinnar, tekið inn í ráðuneytið. Það er einfaldlega hlægilegt í ljósi forsögunnar. Eins og var spurt í dag: Eigum við þá aftur að lifa þá tíma að framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins sé gerður að formanni bankastjórnar í fjármálastofnun? Það er út í hött.

Ég sé að það er bjarmi skilnings og vonar í auga formanns fjárlaganefndar og fagna því að hún er sennilega sammála því þá, eins og hæstv. ráðherra sagði: Málinu verður reddað á morgun. (Forseti hringir.) Ja, það er komið í tímanauð og þá reddum við því svona. Síðan (Forseti hringir.) tökum við hins vegar orðaglímu um það síðar, herra forseti, (Forseti hringir.) hvernig við ljúkum þessu svo.