144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[22:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra sömuleiðis fyrir þó að mér þætti nú lengi vel nokkuð djúpt á honum. Ég er margbúinn að spyrja út í stöðu þessa máls undanfarna daga og vikur en er ánægður með að það hafi nú verið upplýst sæmilega vel hvernig málið nákvæmlega stendur, nú liggur það fyrir. Það er ekki að vænta neins frumvarps hér um framtíðarfyrirkomulag þessara mála, það bíður þings eftir áramótin. Í því ljósi er einboðið hver lausnin er, hún hefur verið að fæðast hér í orðaskiptum, það þarf að tryggja Bankasýslunni fjárheimildir til rekstrar eitthvað inn á næsta ár. Ég tel að það væri eðlilegast að það væri fram undir mitt árið, svona u.þ.b. fram yfir þinglausnir að vori. Þá verður kominn botn í hitt málið, mögulega búið að lögtaka nýtt fyrirkomulag og allir geta skilið sæmilega sáttir.

Hæstv. ráðherra nefndi fyrirkomulag eignarhalds ríkisins til dæmis í Landsbankanum til lengri tíðar litið, það hefur nú þegar verið sett á prent að við þurfum ekki langt að sækja góð fordæmi fyrir því hvernig ríkið getur eftir atvikum eitthvað trappað niður eign sína. Það er norska leiðin sem var sett á prent strax 2010, að Ísland gerði rétt í að fylgja í þessum efnum og gefa það út til langs tíma hvernig ríkið mundi þá áfram eftir atvikum verða svo og svo stór og sterkur kjölfestueigandi eða stóreigandi í stærsta banka landsins, rétt eins og Norðmenn gerðu með DnB.

Ég held að það sé ekki rétt að gera mjög mikið úr því að Bankasýslan sé óskapleg örstofnun með þrjá menn, kosti þá ekki nema nokkra tugi milljóna í rekstri á ári, í ljósi þess að hún fer með 15% af eignum ríkisins. Hún fer með um 250 milljarða eignarhlut í fjármálafyrirtækjum mælt á eigið fé, í eigin fé bankanna, Landsbankans plús hinna. Það er nú ekkert óskaplegur umsýslukostnaður ef þrír menn sjá um það svo vel fari, gríðarlega verðmætur og stór eignarhlutur.

Varðandi sparisjóðina er kannski eitt eftir óleyst í þessu í lokin og það er (Forseti hringir.) spurningin hvort ekki þarf inn í fjárlög næsta árs heimildir til handa eftir atvikum Bankasýslunnar (Forseti hringir.) eða fjármálaráðuneytisins til að skipta (Forseti hringir.) á eignarhlutum í sparisjóðum og bönkum.