144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[22:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta hefur gengið ágætlega hingað til og ríkið ekki tapað miklu á Landsbankanum þó að það hafi borgað vexti af lánum, eiginfjárhlutur ríkisins farið úr 122 milljörðum í á þriðja hundrað milljarða. Við fengum 18% án endurgjalds yfir í fyrra og Landsbankinn hefur borgað ágætlega myndarlegan arð, sem ég veit að hæstv. fjármálaráðherra man vel eftir, t.d. frá því í febrúar á þessu ári. Það hefur því gengið nokkuð vel.

Ég hins vegar endurtek og það kom fram á fundum hjá efnahags- og viðskiptanefnd að viss eftirsjá væri að því að ekki stæði áfram inni í 6. gr. heimild, eins og var að ég held á árunum 2011–2013, að menn gætu keypt og/eða selt eignarhluti í sparisjóðum í þágu fjárhagslegrar endurskipulagningar, sameiningar þeirra, og það gæti verið skynsamlegt að sú heimild opnaði líka á það að ríkið gæti t.d. skipt á einhverjum hluta af eignarhlut sínum í Arion og sparisjóði í eigu þess banka, sem þar með fengi frelsi sem slíkur og gæti tilheyrt sparisjóðafjölskyldunni áfram. En til þess að ég væri fullkomlega ánægður og færi jafn sáttur að sofa og hv. þm. Össur Skarphéðinsson þá vildi ég fá einhver fyrirheit um að það yrði skoðað (Forseti hringir.) og það mundi ekki saka að hafa þessa heimild til (Forseti hringir.) staðar áfram ef á þyrfti að halda.