144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[22:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er náttúrlega enginn umbúnaður um Bankasýsluna hjá ríkisstjórninni en það er fagnaðarefni að hæstv. ráðherra tekur tillit til þeirra ábendinga sem við höfum haft uppi í þessu og ætlar að redda því hér við 3. umr. Það eru raunar ýmsir fleiri hlutir sem ég gæti hugsað mér að hæstv. ráðherra reddaði við 3. umr. og við hljótum að vona að meðan umræðan lifir sé það mögulegt.

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Í hverju liggur ágreiningur hans og hæstv. forsætisráðherra? Hvers vegna er það sem samstarfsflokkurinn hefur neitað að afgreiða tillögur fjármálaráðherra í þessu efni út úr ríkisstjórn? Hvaða efnisatriði eru það sem menn greinir á um þar?

Sömuleiðis vil ég spyrja ráðherrann vegna þeirra armslengdarsjónarmiða sem eru um Bankasýsluna hvort einhver bein samskipti hafi verið milli fjármálaráðherra og Landsbankans og yfirstjórnar hans, hvort það hafi verið komið á framfæri einhverjum sjónarmiðum um að bankinn eigi að selja hluti í félögum sem eru á einkamarkaði eða einhver slík bein eða óbein skilaboð frá ráðherranum eða ráðuneytinu um rekstrarmálefni bankans. Og þá að síðustu hvort ráðherrann telji ekki mikilvægt að eins og við höfum sett lög um opið og gagnsætt söluferli á eignarhlutnum í Landsbankanum sé mikilvægt að Landsbankinn hafi opin og gagnsæ ferli þegar Landsbankinn er að selja frá sér fyrirtæki sem eðli máls samkvæmt eru jafn mikið í eigu almennings þegar þau eru í eigu Landsbankans eins og Landsbankinn sjálfur og hljóta að gilda um þau að mörgu leyti sömu sjónarmið.