144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[22:33]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga. Menn hafa komið víða við í þessari umræðu, núna síðast rætt um Landsbankann og þær ákvarðanir sem teknar hafa verið þar innan dyra um ráðstöfun eigna. Ástæðan fyrir því að við teljum okkur hafa forsendur til að taka slíka umræðu er einmitt sú að Landsbankinn er í ríkiseign. Ég er enn þeirrar skoðunar sem ég var löngu fyrir hrun þegar ríkisbankarnir voru gerðir að hlutafélagi og síðar hlutafélögum, og síðan seldir, að það væri hyggilegt að halda a.m.k. einum banka í ríkiseign að öllu leyti sem kjölfestu í fjármálalífi okkar, og ég er enn þeirrar skoðunar.

Hæstv. fjármálaráðherra sagðist vera á þeirri skoðun að eðlilegt væri að ríkið hefði meirihlutaeign í Landsbankanum en að sama skapi vildi hann vinna að því að selja einhverja hluti í bankanum. Og ég velti því fyrir mér hvers vegna það sé. Á síðasta ári mun hagnaður, arður af Landsbankanum hafa verið yfir 20 milljarðar. Þykir mönnum það of mikið fjárstreymi inn í ríkissjóð? Vilja menn beina því fjármagni eitthvert annað, í aðra vasa? Ég hefði haldið ekki. Ég er því mjög eindregið á því sjónarmiði að við eigum að halda Landsbankanum að öllu leyti í ríkiseign.

Það hefur þokað lítið í framfaraátt við afgreiðslu þessara fjárlaga. Þó vil ég geta þátta sem ég tel vera til góðs og ég nefni þar framlag til löggæslunnar. Framlag til löggæslunnar hefur verið skorið gríðarlega niður á undanförnum árum og þrátt fyrir heitstrengingar um það í upphafi kjörtímabilsins að nú yrði gerð þar mikil bragarbót er ekki svo. Viðbótarfé var sett inn í löggæsluna sem nam um 300 millj. kr. á þessu fjárlagaári sem nú er senn á enda liðið. Ríkisstjórnin kallaði þær 300 milljónir 500 milljónir vegna þess að þær voru til viðbótar 200 milljónum sem fyrri ríkisstjórn hafði sett tímabundið til löggæslunnar til að efla hana, en þar vantar mikið á að við komum henni upp á það stig sem hún var fyrir hrun. Á árunum í kjölfar hrunsins var framlag til löggæslunnar skert um tæpa 3 milljarða á ári, 2,8 milljarðar munu það hafa verið.

Sá þáttur sem ég vék sérstaklega að í fyrri umræðu um fjárlagafrumvarpið var framlag til lögreglunnar sem var sérstaklega eyrnamerkt kynferðisbrotum. Það var skorið niður hjá nánast öllum lögregluembættum sem höfðu fengið slíkt framlag, og hjá ríkissaksóknara að auki. Það var orðað þannig í frumvarpinu og sett í forgang að skera niður fjárframlag sem ætti sérstaklega að styrkja fórnarlömb kynferðisbrota og efla forvarnir á því sviði. Mér fannst þetta og okkur mörgum í stjórnarandstöðunni mjög ámælisvert og áhyggjuefni málefnisins vegna. En einnig bentum við á að við værum ekki að verða við áskorun sem hefði komið frá Evrópuráðinu um að við létum myndarlegt fjárframlag renna til þessa málefnis. Íslendingar hafa staðið mjög framarlega í átaki sem unnið hefur verið að á vegum Evrópuráðsins á undanförnum árum, kennt við Lanzarote á Spáni, á Kanaríeyjum, samningur sem gerður var 2012, hygg ég að það hafi verið, og við höfum undirgengist. En framlag Íslendinga hefur verið annars vegar í vitundarvakningu, þar var gert mikið átak á vegum þriggja ráðuneyta á síðasta kjörtímabili, en einnig með sérstöku fjárframlagi til einstakra lögregluembætta og ríkissaksóknara. Hið jákvæða í málinu nú er að fram hafa komið breytingartillögur um að auka framlagið að einhverju leyti, um 20 milljónir hygg ég að það sé, 10 milljónir til löggæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og 10 milljónir til embættis ríkissaksóknara. Þetta er jákvætt, þetta er gott, og þar með verðum við við þessu kalli frá Evrópuráðinu þótt óbeint sé og styrkjum gott málefni, þótt vissulega hefði upphæðin í breytingartillögunni mátt vera mun hærri. En þetta er nokkuð sem ástæða er til að fagna við þessa umræðu.

Ég vil taka undir þá tillögu sem fram hefur komið frá stjórnarandstöðunni um að fallið verði frá því að lækka sykurskattinn og láta fjármunina sem þannig fengjust renna til eflingar heilbrigðiskerfinu. Við erum að tala þar um 3 milljarða á ári og munar um minna, auk þess sem mjög ámælisvert er að neyslustýra sykri ofan í þjóðina. Í frumvarpi um virðisaukaskatt sem ríkisstjórnin setti fram er ítarleg tafla sem sýnir hvað kaupandi tveggja lítra kókflösku græðir margar krónur á framlagi ríkisstjórnarinnar hvað þetta snertir. Og við erum líka leidd ofan í konfektkassann til að kynnast þar góðmennsku ríkisstjórnarinnar. Þetta er neyslustýring, þetta er ekkert annað en neyslustýring.

Það er líka neyslustýring í heilbrigðiskerfinu þegar hlutur sjúklinga er aukinn um tæpa 2 milljarða í lyfjum. Það er neyslustýring líka. Og hún virkar þannig að fátækt fólk, tekjulítið fólk, veigrar sér við að leita læknisþjónustu og neyta þeirra lyfja sem það annars hefði neytt. Þetta er neyslustýring líka. Ég hélt að við værum búin að ræða þessi mál þverpólitískt í þessum sal og úti í þjóðfélaginu á þann veg að niðurstaðan lægi fyrir, að við ætluðum að reyna að halda af þeirri braut sem við höfum gengið núna síðasta hálfan annan áratuginn með því að auka kostnaðarhlutdeild sjúklinga, ég hélt það. Og félagasamtök hafa mælst til þess, skoðanakannanir í landinu sýna að fólk vill þetta ekki, fólk vill að það verði haldið af þessari braut, en við erum komin með a.m.k. 20% kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustu. Ég vísa, sem ég hef oft gert áður, í rannsóknarskýrslur sem unnar hafa verið á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og einnig á vegum Krabbameinsfélagsins. Þetta er nokkuð sem mér finnst mjög alvarlegur hlutur. Það kemur í ljós að spara á, að mig minnir um 350 milljónir, á grundvelli svokallaðra S-merktra lyfja sem eru færð inn í greiðsluþátttökukerfið en hafa staðið til þessa utan kerfisins. Og hvaða lyf eru það? Það eru krabbameinslyfin og það eru gigtarlyf og það eru lyf sem eru nauðsynleg í erfiðum sjúkdómum.. Maður hefði nú haldið að það væri nóg lagt á þá sem þurfa að glíma við erfiða sjúkdóma að við færum ekki að auka þessar fjárhagslegu byrðar á fólkið.

Hér hefur verið rætt um læknadeiluna og hún kemur þessari umræðu svo sannarlega við vegna þess að 70–80% af rekstrarkostnaði heilbrigðisstofnana eru laun eða útgjöld tengd launum, eitthvað þar um bil. Auðvitað ættum við ekki að gera hlé á þinghaldinu fyrr en niðurstaða er komin í þessa alvarlegu kjaradeilu sem nú geisar. Það er alveg ljóst að óánægja með kjörin er ekki einvörðungu bundin við læknastéttina heldur við ýmsar aðrar heilbrigðisstéttir innan heilsugæslunnar sem hafa verið sveltar hvað varðar kjörin og aðstöðuna og álagið farið vaxandi á undanförnum árum.

Í fréttum í kvöld kom fram að hugmynd hefði verið rædd um að setja á fót svokallaða sáttanefnd sem kæmi að lausn verkfallsdeilunnar við lækna. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði að þar með væri verið að taka kjaradeiluna frá embætti sáttasemjara ríkisins og svipta í raun samningsaðila völdum. Svo er náttúrlega ekki ef báðir aðilar fallast á þá málsmeðferð. Það er ekki óþekkt í kjaradeilum að ákveðið er að skipa einhvers konar gerðardóm, nefnd sem báðir aðilar koma sér saman um að sett verði á laggirnar til þess að reyna að finna lausn á erfiðum deilumálum. En það byggist að sjálfsögðu á því að báðir aðilar séu sáttir við slíka niðurstöðu, vegna þess að læknar eru með verkfallsrétt og samningsrétt og verða ekki sviptir þeim rétti með lögum. Þetta yrði að gerast af fúsum og frjálsum vilja beggja aðila.

Ég hef við þessa umræðu áður komið víða við. Ég hef lýst miklum áhyggjum vegna niðurskurðar til samgöngumála og þá horfi ég sérstaklega til almenningssamgangna, ekki bara á suðvesturhorninu heldur á landinu almennt og minni á að þegar skorið er niður gagnvart þessum lið þá er verið að grafa undan samningum sem iðulega eru vísitölubundnir og gerðir hafa verið milli Vegagerðarinnar annars vegar og landshlutasamtaka sveitarfélaga hins vegar. Við erum að tala þarna um niðurskurð sem nemur um 300 millj. kr. Þetta á í fyrsta lagi við um almenningssamgöngur á suðvesturhorninu. Þar hefur samningur sem fyrri ríkisstjórn gerði við sveitarfélögin á suðvesturhorninu verið rýrður, hann hefur ekki verið færður upp samkvæmt vísitölu eins og til stóð að gera auk þess sem kroppað hefur verið í hann ár frá ári. Í öðru lagi, með því að falla frá endurgreiðslu olíugjalds sem hefur styrkt þessa samninga til þessa, er verið að grafa undan samningunum úti á landi. Það er mjög alvarlegt vegna þess að þar með erum við að fresta því að stíga inn í 21. öldina í samgöngumálum Það er margt fólk á Íslandi sem hefur ekki aðgang að einkabíl og ef það getur ekki reitt sig á vini og kunningja þá getur það hvergi farið. Þetta er bara staðreynd málsins. Það hafa orðið gríðarlegar framfarir með eflingu almenningssamgangna, það þekkja þeir sem búa á þéttbýlissvæðunum en ekki síður aðrir sem núna hafa fengið tækifæri til að fara á milli byggðakjarna. Ef til vill var þetta stærsta framfaraskrefið á sviði samgöngumála sem stigið var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Nú er verið að hverfa frá þessu, það er verið að grafa undan samningunum sem voru gerðir og er það mjög alvarlegt mál, það er mjög alvarlegur hlutur að svo skuli gert, farið frá almannalausnum yfir í rándýrar einkalausnir á þessu sviði sem ýmsum öðrum.

Það er margt annað sem mætti ræða í tengslum við frumvarpið enda hafa menn komið víða við, en þar sem tími minn er á þrotum læt ég ræðu minni lokið hér með.