144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[22:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum nú rætt um allnokkra hríð þetta mál sem kallað er bandormurinn eða ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015, sem er einn af þeim þáttum sem dregur upp þá mynd sem er forgangsröðun ríkisstjórnar Íslands og birtist annars vegar í fjárlagafrumvarpinu og hins vegar í þessum tekjufrumvörpum.

Ég held að það sé orðið lýðum ljóst út á hvað þessi pólitíska forgangsröðun gengur. Við höfum talað um matarskatt og við höfum talað um auknar álögur á menninguna, á bækur, tónlist. Við höfum talað um aðförina að Ríkisútvarpinu, mjög hastarleg inngrip inn í kjör þeirra sem erfiðast standa í samfélaginu, sjúklinga, öryrkja og núna síðast þáttur sem heyrir beinlínis undir þetta tiltekna mál, sem er stytting atvinnuleysisbótatímabilsins.

Ég held að það sé ekki ofsagt að þessi ríkisstjórn sé að marka sér þau spor að vera sú versta sem við höfum séð um langt árabil. (Gripið fram í: Nei.) Og af hverju er það? Það er kannski fyrst og fremst vegna þess hversu purkunarlaus hún er í sinni aðför og líka vegna þess að hún hefur sannarlega sýnt að forgangsröðunin er svo skýr í þágu þeirra sem nóg hafa. Þá er ég að tala um áformin um að fella niður auðlegðarskatt, áformin í þá veru að hætta við þrepaskiptingu tekjuskatts, lækkun veiðigjalda o.s.frv.

Það er annað sem mig langar sérstaklega að gera að umtalsefni hér þegar við förum að sjá fyrir endann á þessari lotu á aðventunni, þ.e. að ræða um fjárlög og fjárlagatengd mál. Það eru hin sérlega ógagnsæju og ólýðræðislegu vinnubrögð sem viðhöfð eru. Það er einfaldara að takast á við fólk sem kemur heiðarlega fram með sín stefnumið, segir hvað stendur til og er tilbúið til þess að takast á um þau mál, um stefnubreytingar og um áherslubreytingar og jafnvel svo að viðkomandi hafi nefnt þær áherslubreytingar í kosningabaráttu þannig að við getum verið þess fullviss að kjósendur hafi gengið með opin augun að kjörborðinu.

Síðan er það svo að ríkisstjórnin sem hér er að völdum viðhefur þá aðferð, þrátt fyrir mikið afl í þinginu, að koma á miklum breytingum á innviðum samfélagsins í gegnum fjárlög og fjárlagatengd mál. Einfalt er í því samhengi að nefna til að mynda framhaldsskólann. Þar sitjum við í raun og veru uppi með þá stöðu að bóknámsskólinn, sá hluti framhaldsskólans sem er bóknámsskóli, er lokaður 25 ára og eldri. Var sú umræða tekin í allsherjar- og menntamálanefnd? Nei. Var hún tekin við skólasamfélagið, við kennarana, við nemendur, við nemendur í öldungadeild, við þá sem hafa kennt í öldungadeild o.s.frv.? Nei. Þessi umræða er hvergi tekin þar sem til þess bærir sitja við borð, heldur er hún tekin eða ekki tekin í umfjöllun um fjárlagafrumvarpið. Þessi stóra breyting á hugsuninni um íslenska framhaldsskólann er tekin með fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra, og um hana er bara fjallað í umfjöllun um fjárlagafrumvarpið í fjárlaganefnd.

Þetta gengur ekki. Þessi vinnubrögð eru ógagnsæ, þau eru ófagleg og þau eru óeðlileg, að ég tali nú ekki um þegar um er að ræða svo mikinn þingstyrk að ríkisstjórnarflokkarnir geta verið þess fullvissir að ná stefnumiðum sínum í gegn þrátt fyrir að þeir taki áhættuna af því að viðhafa jafnvel opin lýðræðisleg vinnubrögð og opna umræðu í samfélaginu. En nei, sá valkostur er ekki notaður. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, þó að það hafi ekki áður verið nefnt í umræðunni, að ég hef efasemdir um það og hef áhuga á því að láta skoða það hvort það standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að útiloka fólk frá íslenska framhaldsskólanum á grundvelli aldurs. Ég tel að það sé ekki hægt.

Það er ekki það eina sem orkar tvímælis í vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar því að í fleiri málum er í raun verið að snúa við blaðinu í gegnum fjárlagafrumvarpið. Eitt þeirra er Ríkisútvarpið. Þar er gengið svo langt að þverpólitísk stjórn Ríkisútvarpsins er sammála um það, líka þeir sex sem ríkisstjórnarflokkarnir lögðu svo mikla áherslu á að fá að stjórnarborðinu, eru sammála um að Ríkisútvarpið getur ekki rækt sínar skyldur miðað við núverandi fjármagn öðruvísi en að breyta lögum um Ríkisútvarpið, en slíkt frumvarp er ekki á leiðinni. Menntamálaráðherra skilar auðu í þeirri stefnumörkun. Nýrri stjórn Ríkisútvarpsins er gert að forgangsraða innan lögboðinna hlutverka sinna til að rúma starfsemina innan tiltekins ramma. Þarna er líka verið að beita fjárlagafrumvarpinu til þess að snúa við blaðinu og breyta stefnu í mikilvægum innviðum samfélagsins.

Virðulegi forseti. Við getum nefnt fleiri mál, eftir að hafa rætt hér aðeins um framhaldsskólann og Ríkisútvarpið sem hvort tveggja heyra undir hæstv. menntamálaráðherra, sem verður nú seint sagt um að hafi staðið vaktina fyrir sína málaflokka. Það er þessi dæmalausa og ég held ég verði að leyfa mér að segja ruddalega aðgerð sem er stytting atvinnuleysisbótatímabilsins. Það heyrir beint undir þingmálið sem hér er til umræðu. Hér er verið að taka ákvörðun um það án samráðs við verkalýðshreyfinguna, án samráðs við aðila vinnumarkaðarins að stytta atvinnuleysisbótatímann úr 36 mánuðum í 30. Og hvaða röksemdir eru með þeirri tillögu? Jú, að nauðsynlegt sé að færa kerfið nær því sem annars staðar gerist á Norðurlöndum o.s.frv. En algjörlega án samráðs við nokkurn mann, auk þess sem líkindin eru engin með þessari breytingu og þeim kerfum sem vísað er til. Hér er látið eins og atvinnuleysistímabilið sé einhvers konar ráðstöfun stjórnvalda á hverjum tíma sem fari eftir smekk, fari bara eftir því hvað ríkisstjórninni finnst temmilegt að fólk njóti lengi atvinnuleysisbóta, en ekki eins og hér sé um að ræða afurð og niðurstöðu umræðu um ára- og áratugaskeið við kjarasamningaborðið á íslenskum vinnumarkaði. Þetta er kúvending á samskiptum ríkisins við vinnumarkaðinn en ekki síður á þeim skilningi sem hið opinbera hefur á samningsbundnum rétti almennings í landinu.

Verði þessi stytting að veruleika þá missa 1.300 manns framfærslu núna um áramótin og á fyrstu sex mánuðum næsta árs. Þeir fá engan aðlögunartíma. (PHB: Fjögur hundruð manns.) Þetta er í raun og veru fullkomlega óþolandi framkoma við fólk. Og það, virðulegur forseti, vegna þess að hér er verið að kalla fram í aðrar tölur en vísað er í í nefndaráliti minni hluta, gildir bara engu. Það er ekki skárra að sparka í aðeins færri hundruð, virðulegur forseti, og, hv. þm. Pétur Blöndal, það er ekki skárra. Þessi framkoma við almenning, við fátækasta fólkið í landinu, við það fólk sem á við erfiðastar kringumstæður að etja, að skella því með einu pennastriki inn á framfærslu sveitarfélaganna, er ruddaleg. Hér er enn og aftur verið að breyta innviðum og skilningi á innviðum samfélags, samfélags sem við einu sinni sammæltumst um eða gerðum einhvers konar samkomulag um að ætti að vera velferðarsamfélag sem byggir á aðgengi fyrir alla að menntun, menningu, heilbrigðiskerfi og velferð. Í hverju málinu á fætur öðru er vegið að þeim þáttum og það er ekki í gegnum viðkomandi þingnefndir eða í gegnum umræðu þar sem sú umræða á að fara fram heldur í umræðu um dálka, um tölur, um plúsa og mínusa en ekki um fólk. Það er óþolandi og það endurspeglar í raun sýn ríkisstjórnarinnar á verkefnið sem hún hefur tekið að sér.

Verið er að hækka álögur hér og þar í öllu kerfinu. Það er verið að hækka álögur á almenning, en ekki síður á atvinnulífið í litlu og stóru. Það er verið að hækka verðið á matarkörfunni og vegið er með mjög alvarlegum hætti að menningunni. Tekin er ákvörðun um það, algjörlega án þess að fyrir liggi hvaða áhrif það hefur eða hvort meintar mótvægisaðgerðir hafi nokkuð að segja, að stórhækka virðisaukaskatt á bækur, á Íslandi þar sem við búum við þá auðlegð að eiga tungumál sem hefur mjög sérstaka stöðu í samfélagi málanna en er um leið tungumál sem er í vörn, sem að öllu leyti þarf miklu fremur á skilningi og stuðningi stjórnvalda að halda. En hvað gerir ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þjóðmenningarráðherra? Hún sækir beinlínis að stöðu íslenskrar tungu í gegnum það að skattleggja bækur og í gegnum það að sækja að Ríkisútvarpinu með hætti sem við höfum aldrei áður séð, Ríkisútvarpinu sem er ekki bara lýðræðisstofnun heldur ekki síður menningarstofnun sem hefur með höndum gríðarlega mikið varðveisluhlutverk í þágu íslenskrar menningar og íslenskrar tungu.

Virðulegi forseti. Það saxast hratt á tímann og þessi staða sem hér er uppi er slík að upp kemur nýtt mál á nokkurra tíma fresti og hefur gert núna undanfarna mánuði og vikur. Þessi umræða verður því engan veginn tæmd hér enda er henni haldið áfram úti um allt samfélag. Og það er gríðarlega mikilvægt að íslenskur almenningur láti til sín taka því að þessi (Forseti hringir.) ríkisstjórn er sannarlega ótæk.