144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ef ég byrja á því síðasta sem kom fram í máli hv. þingmanns þá er það aldeilis ekki, eins og kom raunar fram í andsvari eða ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að allir þingmenn VG séu á því að selja beri hlut ríkisins í Landsbankanum, hvorki að hluta né í heild, og sjálf hef ég verið mjög efins um að það beri að gera yfir höfuð. Það mál er ekki akkúrat á dagskrá núna og mér finnst sú umræða langt í frá vera hafin yfir vafa eða að minnsta kosti skoðanaskipti.

Hv. þingmaður beindi til mín afar krefjandi spurningu sem var sú að ég átti að fara að velta vöngum yfir því hver væru innanmein ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli, hver væri ástæðan fyrir því að málið væri fast inni í ríkisstjórn og hver væri ástæðan fyrir því að hæstv. forsætisráðherra væri að líkindum annarrar skoðunar en hæstv. fjármálaráðherra. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ef þetta mál væri eina málið sem væri þeirrar gerðar að það kallaði fram vangaveltur um á hvaða leið forustumenn stjórnarflokkanna væru í því þá væri það kannski tiltölulega einfalt. En það er því miður eða sem betur fer okkur í stjórnarandstöðunni — þetta er nú stundum óttaleg ringulreið sem við neyðumst til að horfa upp á, en maður veltir vöngum yfir því hvort ekki sé rétt að hæstv. forsætisráðherra tjái sig um þetta mál, því að hann er svo heppilega í húsi og það kann að vera að hann geti þá varpað ljósi á hver ástæðan sé beinlínis fyrir því að málið er fast í ríkisstjórn. En það er sannarlega þess eðlis að það er afar vont efnislega fyrir málið að um það sé búið með þeim hætti að það fái ekki framgang eða að minnsta kosti einhverja skýra úrvinnslu.