144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu. Hún fór vel yfir það hvernig það er alltaf að verða meiri og meiri gliðnun á milli ríkra og fátækra. Og það er ekki eitthvað sem gerist óvart heldur er markvisst unnið að því að auka stéttaskiptingu í þessu landi með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur farið út í. Þannig er veruleikinn.

Varðandi styttingu atvinnuleysisbótatímabilsins úr þrem árum í tvö og hálft ár þá verður stór hópur fyrir því, 1.300 manns. Ekki getur hann farið í verkfall til þess að mótmæla þessu því að hann hefur enga vinnu. Í hvaða stöðu er þessi hópur til að mótmæla og berjast gegn þessu? Hann getur mætt hér á Austurvöll en þetta er auðvitað fólk sem er búsett víðs vegar um landið og þetta er ekki einsleitur hópur. Þetta fólk stendur núna því miður frammi fyrir því, ef það hefur ekki getað fengið atvinnu í tvö og hálft ár, að detta út af atvinnuleysisbótum um áramótin.

Hvað tekur við? Telur hv. þingmaður að sveitarfélögin ráði við það fjárhagslega? Hvernig geta sveitarfélög mætt því, með tilliti til fjárhags þeirra, að koma þarna inn sem öryggisnet fyrir þetta fólk með fjárhagsaðstoð sveitarfélaga? Það virðist vera eina leiðin til þess að það lendi ekki bara algjörlega á vergangi, svo maður tali nú bara íslensku. Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér að blasi við þessum stóra hóp?