144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er ekki ein báran stök í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Hún heldur áfram og heggur í sama knérunn og þá á ég við jöfnun örorkubyrði hjá lífeyrissjóðum verkafólks og sjómanna. Þetta eru þeir hópar sem eðlilega hafa þunga örorkubyrði í lífeyrissjóðum sínum, erfiðisvinnufólk. Maður mundi því ætla að ríkisstjórnin gæti haldið áfram að greiða jöfnunargjald í þá sjóði, líka til þess að það verði ekki enn þá meira bil á milli réttinda ríkistryggðu, opinberu lífeyrissjóðanna og almennu lífeyrissjóðanna. Hv. þingmaður þekkir þá umræðu og gagnrýni að lífeyrissjóðsgreiðslur til opinberra starfsmanna eru ekki skertar þó að eitthvað bjáti á, það er ríkistryggt. En þannig er það ekki hjá almennu sjóðunum og án jöfnunarinnar (Forseti hringir.) geta lífeyrisgreiðslur lækkað um hátt í 5% við þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar.