144. löggjafarþing — 49. fundur,  16. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[00:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu minni hluta velferðarnefndar og hana flytja ásamt mér hv. þingmenn Björt Ólafsdóttir, Guðbjartur Hannesson og Steinunn Þóra Árnadóttir. Við leggjum til að ákvæði til bráðabirgða, sem gilti í þrjú ár, frá 31. desember 2010 til 31. desember 2013, haldi gildi sínu, verði sem sagt framlengt til 31. desember 2015. Í þessu bráðabirgðaákvæði fólst að komið var í veg fyrir víxlverkanir á milli greiðslna frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum. Þessu bráðabirgðaákvæði var ætlað að gilda á meðan fundið yrði endanlegt samkomulag. Það hefur enn ekki gerst og svo virðist sem ekki sé í gangi nein alvöruvinna til að finna viðunandi lausn til frambúðar á víxlverkununum. Við teljum að tillaga meiri hlutans gangi of skammt enda skilar hún örorkulífeyrisþegum í þessari stöðu í heildina um 550 millj. kr. minna. Við teljum ekki annað forsvaranlegt en að framlengja bráðabirgðaákvæðið á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Við hörmum að það hafi ekki orðið niðurstaðan úr þessari vinnu heldur hafi félags- og húsnæðismálaráðherra þess í stað ákveðið að skerða örorkulífeyrisþega sem þessu nemur.