144. löggjafarþing — 49. fundur,  16. des. 2014.

dómstólar.

419. mál
[00:16]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar. Um er að ræða frumvarp þar sem lagt er til að ákvæði í lögum verði framlengt um eitt ár, þ.e. það ákvæði úr lögum um dómstóla sem fjallar um að heimilt verði að héraðsdómurum fjölgi úr 38 í 43. Hér er um framlengingu að ræða.

Við fengum til okkar gesti og komumst að því í nefndinni að álag á dómstólana er enn mikið og að hvorki hefur verið leyst úr öllum þeim ágreiningsmálum sem varða slitastjórnir bankanna né öllum þeim málum sem stafa frá embætti sérstaks saksóknara og fleiri málum er tengjast hruni viðskiptabankanna haustið 2008. Við teljum fulla þörf á að bregðast við þessu og teljum því rétt að samþykkja þetta frumvarp óbreytt.

Undir álitið skrifa sú sem hér stendur og hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.