144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil taka undir með félögum mínum, hv. þingmönnum Helga Hjörvar og Steingrími J. Sigfússyni, um að fráleitt sé að tala um málþóf hér. Þingmaðurinn sem slíkt sagði hér áðan er að sjálfsögðu nýliði og hefur kannski ekki upplifað raunverulegt málþóf sem félagar hans stóðu fyrir í síðustu stjórnartíð og oft með réttu. (Gripið fram í.)

Í mínum huga eru málþóf í sjálfu sér ekki neikvætt fyrirbæri. Málþóf þjóna ákveðnum tilgangi og eru oft eina verkfærið sem minni hlutinn hefur til þess að skapa umræðu um mál sem eru illa unnin eða hreinlega háskaleg. Við skulum ekki tala niður þetta verkfæri minni hlutans, hvort sem það er minni hluti síðasta kjörtímabils eða núna.

Mér finnst undarlegt að ástæðan fyrir því að það hefur verið erfitt að fá alræði meiri hlutans að borðinu er að meiri hlutinn hefur í raun og veru ekki lagt nein mál fram. Við höfum verið að tala um fjárlagafrumvarp hér undanfarnar vikur og það er yfirleitt mjög erfitt að fá meiri hluta til samstarfs um að laga liði. Ég vil samt þakka meiri hlutanum fyrir þær lagfæringar sem hafa verið gerðar þó að þær gangi engan veginn nógu langt.

Ég vil líka segja að mér finnst stjórnarmeirihlutinn eigi að hlusta á þetta og taka það til sín. Fólk hefur áhyggjur, það er hrætt, því finnst sér ógnað af núverandi stjórnvöldum. Mér finnst að (Forseti hringir.) núverandi stjórnvöld eigi að taka þetta til sín og hlusta á það.