144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Þær ráðstafanir sem birtast í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingu á sköttum og vörugjöldum munu leiða til lækkunar á vöruverði á Íslandi. Þær munu leiða til lækkunar vegna þess að nettóáhrifin eru þannig að lækkun efra þreps virðisaukaskatts og vörugjalda mun gera meira en að vega upp á móti hækkun á neðra þrepinu.

Það er hins vegar á valdi þeirra sem dreifa vörum á Íslandi hvernig þessi ráðstöfun kemur til með að líta út og ábyrgð þeirra sem um það véla er mikil. Það verður að segjast eins og er að undanfarið ár hefur sú stétt ekki staðið undir þeirri ábyrgð vegna þess að gengisstyrking krónunnar hefur ekki skilað sér í vöruverð eins og vera skyldi. Það er í raun þannig að sú inneign sem neytendur eiga hjá kaupmannastéttinni í landinu gerir meira ein og sér en að dekka hækkun lægra þreps virðisaukaskatts. Það er því mjög brýnt að fylgst sé með þróun vöruverðs á næstunni. Enn eru að koma fram góð teikn um lækkun vöruverðs. Síðast í morgun lýsti annað skipafélaganna því yfir að orkuálag á frakt mundi detta niður. Það er því tækifæri og fullt tilefni til þess að hér verði myndarleg verðlækkun á fyrstu vikum nýs árs. Það er hins vegar okkar allra að fylgjast með að svo verði, og verði það ekki þá get ég alveg sagt að það hefur oft verið efnt til funda á Austurvelli og víðar út af minna tilefni.

Talandi um vont veður í boði ríkisstjórnarinnar, hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon, (Forseti hringir.) nýliðinn er heitasti nóvember (Forseti hringir.) sem elstu menn muna.