144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Oft vill spretta upp umræða á Alþingi og úti í þjóðfélaginu sem byggist á togstreitu milli landsbyggðar og suðvesturhornsins. Það er bagalegt að heyra forstjóra ríkisstofnunar ýja að því að einungis sé hægt að fá háskólamenntað fólk til starfa á höfuðborgarsvæðinu og að þess vegna verði allar stofnanir ríkisins að hafa megnið af sínu starfsfólki á suðvesturhorninu. Á þessu er ekki góður bragur. Ég trúi því að við séum öll sammála um mikilvægi landsbyggðarinnar og mikilvægi höfuðborgarinnar ásamt byggðinni í kringum hana. Við viljum efla hvort tveggja. Því verðum við að bera virðingu fyrir og taka alvarlega þær áhyggjur sem fyrir okkur er lýst og taka við þeim tillögum sem lagðar eru fram til úrbóta.

Það er virðingarvert að fólk komi með tillögur að lausn í stað þess að bíða eftir að vera rétt allt upp í hendurnar. Það er svo okkar að vinna að því sem að okkur snýr af skynsemi og fagmennsku. Okkur hefur tekist svo vel til með ýmis verkefni og til dæmis sammæltumst við um aðferð í gegnum lagasetningu til að styrkja löggæslu- og sýslumannsembætti landsins. Ég vona svo innilega að sú styrking gangi eftir.

Mig langar að koma inn á eitt atriði hvað varðar aðstöðumun landsvæða. Áhrif læknaverkfallsins, landflótti lækna, slæm aðstaða á Landspítala og fleira hefur með réttu verið mikið til umræðu undanfarið. Öll sjáum við að þetta er ekki ástand sem við viljum búa við og hefur áhrif á alla landsmenn. Staðreyndin er hins vegar sú, því miður, að íbúar landsbyggðarinnar hafa búið við og búa enn við sams konar ástand fyrir það sem flestir mundu telja sjálfsagða og nauðsynlega þjónustu eins og fæðingarþjónustu, bráðaþjónustu og utanspítalaþjónustu. Fæðingarþjónustunum á landsbyggðinni fækkar ört þrátt fyrir að þær hafi skilað einna bestum árangri á heimsvísu. Alvarleg veikindi og slys er fljótlegra að taka á ef sérhæft starfsfólk er til staðar. Búið er að skera niður í sjúkraflutningum og flugvellir lokaðir þannig að sjúkraflug getur ekki farið fram. Við þetta getum við ekki búið, við verðum því að sýna ábyrgð og vinna saman að lausn vandans.