144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[11:29]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin ber sér á brjóst í máli 2, um virðisaukaskattinn, og talar þar um að verið sé að færa peninga til heimilanna en svo þegar við ræðum þetta frumvarp, sem fjallar líka um gjöld, skortir einhvern veginn gífuryrðin. Hér er verið að ná í pening frá til dæmis sjúklingum og atvinnulausum. Með þessu frumvarpi fer ríkisvaldið ítrekað í mörgum liðum á svig við gerða samninga. Það er ekkert samráð. Við í Bjartri framtíð mótmælum því hvernig verið er að umgangast tryggingagjaldið. Það hækkaði eftir hrun út af atvinnuleysi. Atvinnuleysið hefur farið niður en tryggingagjaldið fer ekki niður til samræmis þannig að þar er ríkisvaldið bara að ná sér í pening á mjög ógagnsæjan hátt þrátt fyrir að talað sé um að einfalda skattkerfið. Þetta frumvarp flækir þetta allt saman. Þarna er ríkisvaldið bara að ná inn peningi bakdyramegin í gegnum tryggingagjald sem er núna orðið einhvers konar (Forseti hringir.) launaskattur. Við mótmælum þessu frumvarpi, teljum það mjög vont og erum á rauða í þessu.