144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[11:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þessu frumvarpi er að finna margar mikilvægar breytingar, en það er líka athyglisvert hvað er ekki að finna í þessu frumvarpi. Þar er til dæmis ekki verið að hækka til jafns við verðlag ýmis krónutölugjöld og skatta sem við erum vön að gera. Það er innlegg ríkisstjórnarinnar í það að halda verðlagi stöðugu á næsta ári. Það eru engar hækkanir á krónutölugjöldum og sköttum fyrir árið 2015. Þetta er mál sem við ræddum töluvert hér fyrir ári og ríkisstjórninni var þá mjög legið á hálsi fyrir að ætla að hækka gjöldin til jafns við verðlag. Við breyttum því síðan á lokametrunum niður í 2,5% en þetta er á núlli á næsta ári. Það er mikilvægt innlegg ríkisstjórnarinnar í stöðugt verðlag á komandi árum.

Síðan ætla ég ekki að taka aftur umræðuna um alla þá liði sem hér er minnst á, en það er ekkert óeðlilegt við það í landi með jafn hátt atvinnustig og er á Íslandi að atvinnuleysisbætur séu ekki greiddar lengur en í tvö og hálft ár.