144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

404. mál
[12:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið af hálfu þingmanna, ég bind líka vonir við að þetta verkefni verði að veruleika og það sem fyrst. Þetta er afar mikilvægt verkefni, bæði fyrir það svæði sem hér um ræðir og eins fyrir landið í heild. Ég studdi það líka þegar farið var í lagasetningu á síðasta kjörtímabili til að hrinda þessu af stað á sömu forsendum í von um að það mætti verða til þess að efla atvinnuuppbyggingu og eiga þátt í því að koma þeim hagvexti á hreyfingu, bæði staðbundið og yfir landið í heild, sem við þurfum á að halda.

Ég vildi hins vegar koma hér upp, hæstv. forseti, bara til að árétta að sérlausnir fyrir sérstök svæði eða sérstök fyrirtæki eru að mínu mati ekki heppilegasta leiðin til að stuðla að atvinnuuppbyggingu. Að mínu mati er ekki heppilegasta leiðin að við tökum í þinginu afstöðu til einstakra atvinnuuppbyggingarverkefna með sérstakri löggjöf eða sérstökum samningum. Ég held að það sé miklu hentugra og heppilegra bæði út frá hagkvæmnis- og jafnræðissjónarmiðum að um sé að ræða almenna löggjöf fyrir atvinnulífið í landinu sem er það hagkvæm og hagstæð að hún laði til sín atvinnuuppbyggingu.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að við störfum í umhverfi þar sem samkeppni er um verkefni af þessu tagi. Sú samkeppni birtist oft í ýmiss konar sértilboðum af hálfu annarra landa eða einstakra svæða í einstökum löndum og við getum auðvitað ekki skorast undan þeirri samkeppni. Við getum ekki setið hjá en ég held að í hvert skipti sem við tökumst á við lagasetningu sem felur í sér einhvers konar sérlausnir fyrir einstaka aðila, einstök svæði eða einhver frávik frá hinum almennu reglum skattalaga og annarra reglna ættum við að hafa í huga að þau atriði sem við kjósum að setja inn í samninga af því tagi ættu að vera okkur umhugsunarefni þegar kemur að því að setja atvinnulífinu almenna löggjöf.