144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

404. mál
[12:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna það við hv. þingmann að ég er honum hjartanlega sammála um þetta, það væri auðvitað óskandi að við gætum sett hér almenna löggjöf sem væri svo aðlaðandi að hingað flykktust erlendir fjárfestar til að setja upp starfsemi. Vandinn er bara sá að svo er ekki og hefur aldrei verið. Ef við skoðum erlenda fjárfestingu í gegnum tíðina hefur hún aldrei komið hingað inn öðruvísi en með einhverjum svona samningum. Það er miður. Ég vil þess vegna leggja inn hjá hv. þingmanni þá hugsun hvort það sé ekki eitthvað annað sem við þurfum að horfa til en eingöngu skattumhverfi og annað slíkt, t.d. gjaldmiðillinn. Ef við horfum aftur til baka sjáum við að erlend fjárfesting hefur nánast ekki verið nein hér á landi fyrir utan stóru fjárfestingarnar í tengslum við álverin sem komu inn með samningum eins og hér um ræðir og síðan aftur vegna fjármagnshreyfinga í aðdraganda hrunsins sem voru kannski af þeim toga sem vildum ekki sjá aftur og voru undanfari bólunnar sem sprakk hressilega framan í okkur.

Það er eitthvað að í grunninn, og hefur alltaf verið, í okkar efnahagslífi sem veldur því að erlend fjárfesting laðast ekki að landinu nema í gegnum svona samninga. Ég er til í það með hv. þingmanni að fara vandlega í gegnum það með hvaða hætti við getum gert Ísland meira aðlaðandi. Á meðan við erum til dæmis með gjaldeyrishöft, a.m.k. það, held ég því miður að við þurfum áfram að reiða okkur á svona samningagerð og þess vegna styð ég hann líka.