144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

404. mál
[12:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég segi það með hv. þingmanni að það þarf auðvitað að skoða starfsumhverfi atvinnulífsins heildstætt þegar horft er til þessara þátta. Ég held að í sambandi við skattamál skipti þau miklu máli, enda sjáum við að þau sérkjör sem verið er að bjóða fyrirtækjum í samningum af þessu tagi miðast oft einmitt við skattalega þáttinn þannig að ég held að strax þar höfum við ákveðnar viðmiðanir þegar við hugsum um hvernig starfsumhverfi við viljum hafa fyrir atvinnulífið.

Ég tek undir það með gjaldeyrishöftin að þar er um að ræða verulega hindrun í augnablikinu. Við getum svo deilt um það hvort tenging okkar við stærra myntsvæði hefur fleiri kosti eða galla í för með sér. Það er að mínu mati stærri umræða en auðvitað þurfum við að taka hana bæði í bráð og lengd. Hins vegar held ég að ef við horfum bara á þau sérkjör sem verið er að bjóða í samningum og sérlögum af þessu tagi höfum við ákveðnar viðmiðanir sem við getum horft til þegar við erum að velta fyrir okkur hvernig við viljum að öll hin fyrirtækin í landinu hafi það.