144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

404. mál
[12:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Úr því að umræða er hafin hér á annað borð um þetta tiltölulega sjálfsagða mál, að framlengja gildistíma laga sem tengjast stuðningi við uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka norðan Húsavíkur, er sjálfsagt rétt að einn frá hverjum flokki blandi sér í þá umræðu. Mér er málið ekki minna skylt en öðrum. Ég flutti þau frumvörp sem hér um ræðir og urðu að lögum og skrifaði undir samningana fyrir hönd ríkisins um stuðninginn við þetta verkefni. Ég held að í sjálfu sér sé ekki margt að segja um framlenginguna á þessu ágæta máli af þeirri einföldu ástæðu að áformin hafa enn nokkuð tafist. Framlengingin er sjálfsögð, ekki síst í ljósi þess og það er auðvitað mjög ánægjulegt og mikilvægt að leggja áherslu á það, að Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, hefur tekið út og samþykkt alla þessa samninga. Allt sem snýr að aðkomu stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga, í samskiptum við fyrirtækið sem í hlut á, hefur verið samþykkt af ESA.

Það var mikill áfangi. Ýmsir höfðu uppi efasemdir um það á sínum tíma þegar málin voru hér til umræðu að þetta fengist samþykkt en það hefur engu að síður gerst og það athugasemdalaust. Það er mjög mikilvægt vegna þessa verkefnis sem slíks en það er líka mikilvægt fordæmisins vegna. Vegna þeirra orðaskipta sem voru hér áðan er kannski ástæða til að leggja áherslu á það. Það er mjög mikilvægt að nú liggur það fyrir staðfest að við aðstæður af þessu tagi, þar sem ný starfsemi er að fara af stað á nýju svæði og þar sem þarf að yfirstíga þröskulda sem ekki eru til staðar þar sem í boði er staðsetning á þegar uppbyggðu svæði sem nýtur góðs af allri fyrri uppbyggingu og innviðafjárfestingu, er stjórnvöldum, ríki og sveitarfélögum, heimilt að teygja sig lengra til að jafna þann aðstöðumun. Það hefur ESA núna samþykkt og það er mjög mikilvægt. Það auðveldar mönnum að brjóta ísinn eða brjóta vindinn eða ryðja brautina eða hvað við viljum segja þegar um er að ræða uppbyggingu á nýjum svæðum sem við köllum stundum köld svæði. Þar með komast þau svæði inn úr kuldanum, hitna upp og verða ákjósanlegri og auðveldari staðsetningarvalkostur í framhaldinu fyrir fjölþættari starfsemi og ný fyrirtæki. Þannig er þetta að sjálfsögðu hugsað.

Það er mjög mikilvægt í landi eins og Íslandi að þessi réttur sé staðfestur. Ég skil satt best að segja ekki alveg málflutning eða vangaveltur um að það sé eitthvað að því, ef menn á annað borð vilja hafa einhverja stefnu yfir höfuð um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu sem gagnist hinum ýmsu svæðum landsins, að stjórnvöld hlúi að henni, m.a. með aðgerðum af þessu tagi. Út á það gengur öll viðleitni stjórnvalda til þess að hafa að einhverju marki áhrif á byggðaþróun, atvinnuuppbyggingu og búsetuþróun, að þau beiti tækjum sínum innan þeirra marka sem leyfilegt er og við erum bundin af að fylgja í sambandi við ríkisstyrkjareglur Evrópska efnahagssvæðisins. Menn eiga að gera það ef hugur þeirra stendur til þess. Það tel ég sjálfsagt og það væri stórkostlegur missir fyrir Ísland og áfall ef mönnum væri þetta ekki heimilt. Það þrengir að og takmarkar mjög uppbyggingarmöguleikana. Í reynd kæmi þá eingöngu til greina uppbygging og þróun á þeim svæðum sem þegar eru komin í gang með þeim afleiðingum sem það mundi augljóslega hafa.

Ég bind miklar vonir við að þarna sé að opnast færi á nýjum staðsetningarvalkosti, einum í viðbót fyrir þá sem fyrir eru, fyrir ýmiss konar fjölbreyttan, lítinn eða meðalstóran iðnað, m.a. orkutengdan iðnað. Fyrir eru Grundartangasvæðið og nágrenni höfuðborgarsvæðisins, eftir atvikum síðan Suðurnes og Miðausturland og svo kemur þarna til sögunnar nýr valkostur í Þingeyjarsýslum. Við þurfum líka að hafa í huga þá samkeppni sem Ísland er í í þessum efnum. Efasemdarmenn ættu að velta henni fyrir sér. Við erum að keppa við löndin allt í kringum okkur sem öll eru með umfangsmikið fyrirkomulag af þessu tagi, innan Evrópusambandsins, í Noregi sem er auðvitað í sömu stöðu og við að því leyti að kerfið þar er tekið út af ESA, í Kanada, Bandaríkjunum og annars staðar. Satt best að segja erum við ekki að bjóða neitt nálægt því jafn umfangsmikinn stuðning og maður sér sums staðar í boði þar sem allt upp í 40% af beinum stofnkostnaði slíkra verkefna eru ekki bara veitt í formi skattaívilnunar heldur greidd út í peningum í beinum stofnstyrkjum. Ég hef einmitt séð dæmi um slíkt þar sem aðilar hafa verið að velta fyrir sér staðsetningu annars vegar á Íslandi og hins vegar segjum Póllandi þar sem í boði voru allt að 40% beinir stofnstyrkir. Þar er hins vegar annað sem er óhagstæðara og gerir það að verkum að við kannski stöndum sterkar að vígi í samkeppninni, við getum boðið mjög samkeppnishæft orkuverð frá endurnýjanlegum orkugjöfum og erum með þróaðri innviði og ýmislegt þróaðra í umhverfinu en sum önnur lönd.

Við verðum að vona að sú skoðun sem ESA hefur núna tekið upp á orkusölusamningi Landsvirkjunar og flutningssamningi Landsnets valdi ekki neinum teljandi töfum á því að framkvæmdir geti hafist. Fyrir lá að endanlegar ákvarðanir um það yrðu teknar á næstu vikum þangað til þetta kom upp. Ég hef í sjálfu sér engar áhyggjur af því að þessir samningar standist ekki skoðun. Það er mikilvægt að árétta í því sambandi, og það þurfa þingmenn og stjórnmálamenn og aðrir sem um þetta ræða að hafa í huga, að eitt af því sem það snýst um er að þessir samningar voru gerðir á hreinum viðskiptalegum forsendum. Það er mjög mikilvægt að allir hafi í huga að það er sú víglína sem hér þarf að standa vörð um. Tími einhvers konar handafls þar sem menn beittu orkufyrirtæki eða flutningsfyrirtæki í opinberri eigu þrýstingi til að bjóða hagstætt verð til að landa slíkum verkefnum er liðinn. Sem betur fer veit ég ekki hvað oft á síðasta kjörtímabili ég fór með þá ræðu, og það er hægt að fletta því upp, vegna þess að stundum var sótt að manni með aðrar hugmyndir, að menn væru of stífir á því að fyrirtækin, ekki síst Landsvirkjun, gerðu núna samninga á viðskiptalegum forsendum og engu öðru. Það reynir heldur betur á það einmitt núna. Það er meðal annars til skoðunar að hér hafi eingöngu hrein viðskiptaleg sjónarmið ráðið för þegar kemur að því að ganga frá inntaki þessara samninga og verði og ekkert annað. Það er ég sannfærður um að eigi við í báðum tilvikum og hef af því engar áhyggjur. Svo mikið er víst að Landsvirkjun hafði skýr fyrirmæli um það frá stjórnvöldum á þeim tíma sem þessir samningar voru gerðir að viðskiptaleg sjónarmið og ekkert annað ætti að ráða för. Ég spái að þessi athugun muni leiða í ljós að þannig sé það og þá ætti ekki að vera ástæða til að hafa áhyggjur af málinu efnislega. Hitt er því miður ekki hægt að útiloka að þessi athugun geti tekið einhvern tíma. Það er mjög bagalegt. Við verðum að vona það besta í þeim efnum og heitum á stjórnvöld, fjármálaráðuneytið og atvinnuvega- og viðskiptaráðuneytið, og síðan fyrirtækin sem auðvitað svara fyrst og fremst fyrir þetta sjálf, því að þau gerðu þessa samninga án aðkomu stjórnvalda, að þeim takist mjög fljótt og vel að bregðast við erindi ESA, svara spurningum stofnunarinnar og vonandi fá það mál á hreint.

Svo þarf ekki að hafa mörg orð um það að mikilvægi þessa verkefnis og ýmislegs sem því tengist er gríðarlega mikið, ekki bara fyrir þetta svæði eins og hér var nefnt heldur líka þjóðhagslega. Þetta er meðalstór fjárfesting sem mundi að sjálfsögðu hafa jákvæð áhrif á fjárfestingarstigið í landinu. Með tilkomu Vaðlaheiðarganga og bættra samgangna á svæðinu og að þessi mikla uppbygging fari af stað, bæði á sviði orkunýtingar og iðnaðarframleiðslu í Þingeyjarsýslum, sem gæti orðið upphafið að löngu og samfelldu uppbyggingarskeiði þar sem nýir áfangar kæmu svo inn í virkjunum og fleiri kaupendur orkunnar eða stækkanir á þeim iðnaði sem þarna er að fara af stað, hafa forsendur aukist til að gera Miðnorðurland eða Norðausturland að einu mesta hagvaxtarsvæði Íslands næstu árin. Og að sjálfsögðu er maður áfram bjartsýnn á að svo verði og vonar að það geti farið af stað sem fyrst.