144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

404. mál
[12:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna um þetta mál. Sérstaklega vil ég segja að ræður hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og annarra úr stjórnarandstöðunni hljóma eins og konfekt í eyrum okkar sem gerum okkur grein fyrir því hversu mikilvægur orkufrekur iðnaður er fyrir framtíðaruppbyggingu í okkar ágæta landi. Ég verð að segja að sú stefnubreyting sem birtist okkur í þessu máli hjá Vinstri grænum er mjög ánægjuleg og hlýtur að vekja með okkur vonir um að það náist víðtækari samstaða um skynsamlega nýtingu orkuauðlindanna í landinu til uppbyggingar og eflingar verðmætasköpun í okkar landi sem er okkur svo nauðsynleg.

Það er alveg rétt að ríkisstjórnin á síðasta kjörtímabili hafði forgöngu um samninga um þessa verksmiðju. Það var ekki alveg óumdeilt hversu langt var gengið í þessum ívilnunum, en ég tek undir þau sjónarmið sem hafa komið hér fram um mikilvægi þess að stjórnvöld á hverjum tíma geti haft með þau mál að gera. Þó að best sé auðvitað að almennt umhverfi atvinnulífsins sé með þeim hætti að það laði að mikla og öfluga fjárfestingu getum við haft um það segja hvernig tekið er tillit til þess að við viljum efla byggð um allt land. Ég tel að það séu grundvallaratriði í því hvernig við hugsum þau stóru skref sem þarf að stíga í framtíðinni.

Sú stefnubreyting sem birtist hjá Vinstri grænum í þessu máli er eins og ég segi mjög ánægjuleg. Hér er um að ræða verksmiðju sem mengar vissulega átta sinnum meira á hvert framleitt tonn en til dæmis álverksmiðjur sem menn hafa talað ósæmilega niður í umræðu um orkufrekan iðnað, einhvern besta iðnað sem við getum haft í landinu. Ég tel að það sé innan viðráðanlegra marka, það sé ekkert óeðlilegt við það og það sé miklu betra að slíkar verksmiðjur rísi hér sem nýta endurnýjanlega orkugjafa en séu ekki byggðar á nýtingu á raforku þar sem hún er framleidd með kolum og olíu.

Það er vissulega áhyggjuefni að ESA skuli hafa séð ástæðu til að taka til skoðunar raforkusamningana sem þessu verkefni fylgja. Ég hef rætt þetta við þá sem hafa þekkingu á því máli og ég tel að við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af því, en slæmt er ef það tefur eitthvað málið og við þurfum auðvitað að reyna að beita okkur eins og við getum í því að þær tafir verði ekki miklar og helst engar.

Í dag er staðan þannig að Ísland er eina landið, í heiminum er mér næst að segja, a.m.k. í Evrópu og þó að við leituðum víðar fanga, þar sem hægt er að gera langtímasamninga við orkufrek iðnaðarfyrirtæki í fjölbreyttri atvinnustarfsemi, eina landið sem getur gert 15 ára samning. Þetta gefur okkur gríðarlegt forskot á það að geta laðað til okkar erlenda fjárfestingu og þá verðmætasköpun sem hér þarf að eiga sér stað vegna þess að það sem við Íslendingar þurfum á að halda er að nýta orkuauðlindir okkar til að auka gjaldeyrissköpun í samfélaginu. Það sést nú þegar efnahagslífið er að taka við sér, neysla að aukast og umsvif í öllu atvinnulífi og hjá heimilum sömuleiðis að viðskiptajöfnuður landsins er að gefa eftir. Við verðum að einbeita okkur að því að efla gjaldeyrissköpun þannig að við höfum efni á að skapa hér þau lífsgæði sem við viljum skapa.

Rammaáætlun er lykillinn að því. Það er alveg ömurlegt hvernig farið var með svo augljóslega góða virkjunarkosti eins og raun ber vitni við afgreiðslu hennar í tíð síðustu ríkisstjórnar. Eftir að hafa hlustað á þingmenn minni hlutans geri ég mér vonir um að þeir sýni því skilning hversu mikilvægt það er að við stígum næstu skref í þessu. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þau stóru verkefni sem nú eru á borði Landsvirkjunar, stór verksmiðja uppi á Grundartanga og tvær verksmiðjur suður í Keflavík, byggja á því að við förum í virkjunarframkvæmdir í neðri hluta Þjórsár og víðar. Öðruvísi verða þessi verkefni ekki að veruleika. Við getum ekki gefið þeim fjölmörgu aðilum sem núna leita hófanna á Íslandi um að setja upp atvinnustarfsemi tækifæri öðruvísi en að við stígum áfram skref í nýtingu orkuauðlinda okkar. Það er enginn að ganga á náttúruna með óábyrgum hætti þegar þessir virkjunarkostir eru undir. Þvert á móti tökum við til umfjöllunar og framkvæmda virkjunarkosti sem allir eiga að geta verið sammála um að eigi heima í nýtingarflokki rammaáætlunar og eru mjög nauðsynlegir til eflingar íslensku atvinnulífi og (Forseti hringir.) verðmætasköpun í landinu.