144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[12:34]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég lýsti yfir við 2. umr. ákvað nefndin að taka þetta mál til skoðunar á milli 2. og 3. umr. Það komu ábendingar frá umsagnaraðilum um að kannski þyrfti að skoða tiltekin ákvæði betur, sér í lagi þá breytingartillögu sem nefndin í heild sinni lagði til. Við funduðum um efnið með ráðuneytinu. Í b-liðnum er ákvæði sem er ætlað að dreifa ákveðnum hluta tekna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til sveitarfélaganna á grundvelli hlutdeildar þeirra í heildarútsvarsstofni ársins á undan. Í því felst að tekjurnar dreifast í hlutfalli við stærð. Þetta var lagt til vegna tekjumissis sem sveitarfélögin verða fyrir vegna skattfrjálsrar úttektar séreignarsparnaðar samkvæmt lögum um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

Þegar nefndin fjallaði um málið lágu fyrir athugasemdir, þar á meðal frá Reykjavíkurborg, þess efnis að sú upphæð sem um ræðir mundi ekki nægja til að bæta sveitarfélögunum umræddan tekjumissi. Þá fæli ákvæðið í sér að hluti tekna jöfnunarsjóðsins er tekinn út fyrir sviga og honum ráðstafað á annan hátt en samkvæmt þeim reglum sem gilda um úthlutanir úr jöfnunarsjóði. Þannig mundi meira koma í hlut stærri sveitarfélaganna en þeirra minni. Við erum að ræða um mjög mikilvægan hlut sem er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Það var einhugur í nefndinni um að þegar hún þyrfti að taka jafn stórar ákvarðanir og hér um ræðir þyrfti hún að gefa sér meiri tíma til að fjalla um málið og átta sig á öllum öngum þess. Það er enn viðhorf nefndarinnar. Ráðuneytið hefur hins vegar lýst því yfir að það muni strax hefja undirbúning að frumvarpi þar sem þetta ákvæði mun aftur koma inn, vonandi eins fljótt og auðið er eftir áramót, hugsanlega með einhverjum breytingum til að styrkja það. Við í nefndinni fögnum því að sjálfsögðu. Við höfum gagnrýnt ráðuneytið fyrir að koma of seint fram með mál og ráðuneytin hafa sýnt vilja til þess að bæta þau vinnubrögð. Nefndin er sjálfstæð og hún vill vanda sín vinnubrögð eins og hún hefur gert þannig að þetta verður niðurstaðan. Það er enginn skaði skeður fyrir sveitarfélögin. Það verða hugsanlega einhverjar tafir á greiðslum, en við munum gefa okkur tíma þegar frumvarpið kemur fram til þess að fara ítarlega yfir það, vanda umfjöllun okkar og reyna svo að afgreiða það úr nefndinni eins hratt og auðið er.