144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

405. mál
[12:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða við 3. umr. frumvarp um breytingu á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, með síðari breytingum. Ég fagna því að ríkisstjórnin hafi ákveðið að framlengja þessi lög. Þegar þau voru sett á síðasta kjörtímabili var búin að vera mikil pressa á stjórnvöld að gera þetta í þó nokkuð mörg ár á undan og var því mikið fagnaðarefni þegar það var loksins gert á síðasta kjörtímabili. Að ákveðnu leyti kemur þetta okkur aftur inn í samkeppnina um nýsköpunarfyrirtækin á heimsvísu. Oft er hér um að ræða fyrirtæki í hugverkaiðnaði sem geta verið hvar sem er í veröldinni. Frumvarpið stuðlar líka að innri vexti fyrirtækja hér á landi sem stunda rannsóknir og þróunarstarfsemi. Þarna er um að ræða alveg ótrúlega mörg fyrirtæki.

Við höfum fengið að heyra margar sögur af fyrirtækjum þar sem þessi stuðningur hefur skipt sköpum í starfsemi þeirra, gert þeim kleift að stækka og vaxa innan frá þannig að þau geti tekið næstu skref, tekið sprettinn inn í framtíðina og í það að verða burðug fyrirtæki hér á landi sem geta skapað hér atvinnu og vöxt. Þannig skapa þau líka landi okkar gott orðspor á ýmsum sviðum þegar kemur að rannsókn og þróun innan atvinnulífsins.

Virðulegi forseti. Einhvern tímann var tekið saman hvar fyrirtæki sem nýttu sér þetta voru staðsett á landinu. Síðast þegar ég vissi var það ákveðið áhyggjuefni hversu fá fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins nýttu sér þessa löggjöf. Ég vona að það hafi þróast til betri vegar vegna þess að fjölmörg fyrirtæki um landið allt geta nýtt sér hana. Ég vona að hún sé komin þannig á vitorð fyrirtækja og rekstraraðila um land allt að menn nýti sér hana í auknum mæli.

Ég tek undir þær áhyggjur nefndarinnar, sem stendur einhuga að þessu máli, sem fram koma í nefndaráliti við afgreiðsluna fyrir 2. umr. af því sem fjallað er um í 1. gr. frumvarpsins. Þar er lagt til að fyrirtæki sem eigi í fjárhagsvanda falli utan gildissviðs laganna. Þetta má ekki túlka of vítt vegna þess að það er ekki skýrt í lögunum hvers lags fyrirtæki menn eiga þarna við. Það er mjög líklegt eins og fram kemur í ágætu nefndaráliti nefndarinnar að þetta verði túlkað þröngt, þ.e. að mörg lítil nýsköpunarfyrirtæki gætu hugsanlega fallið undir þessa skilgreiningu vegna þess að það er eðli starfseminnar á upphafsárunum að þau séu ekki endilega rekin með hagnaði. Ekki síst þess vegna eru þessi lög orðin til, til að styðja slík fyrirtæki þegar þau eru að stíga sín fyrstu skref. Annars er hætt við að eingöngu stærri fyrirtæki sem taka þátt í nýsköpunar- og þróunarverkefnum eigi rétt á stuðningi í gegnum þessa löggjöf. Þess vegna vildi ég koma hérna upp til að taka undir með nefndinni og ítreka að það þarf að fylgjast gríðarlega vel með því hvernig reglugerð ráðherra setur í framhaldinu til að tryggja það sjónarmið nefndarinnar að þetta hafi ekki neikvæð áhrif á lítil nýsköpunarfyrirtæki sem eru að byrja. Erindi mitt hingað upp er að brýna okkur öll til þess, ekki síst nefndina sjálfa, að fylgjast vel með þessu, fá að sjá reglugerðina sem verður sett í framhaldinu og vakta það síðan vel að þetta setji ekki slíkum fyrirtækjum skorður.

Í annan stað vil ég brýna okkur þingmenn sem förum um landið og þekkjum vel til og hittum mörg fyrirtæki og rekstraraðila að við tryggjum að menn þekki þessa löggjöf þannig að fyrirtæki um land allt nýti sér hana eins og þau eiga rétt til.