144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var mat meiri hluta fjárlaganefndar að hafa skýringartextann eins og hann er vegna þess að það er mat okkar þingmanna sem sitjum í meiri hluta fjárlaganefndar að vera í sókn fyrir skólann en ekki vörn. Eins og ég hef talað um prívat við hv. þm. Kristján Möller eru uppi mikil áform um að þessi ríkisstjórn haldi áfram að byggja upp háskólana úti á landi, ekki aðeins Háskólann á Akureyri heldur líka Háskólann á Hólum og Háskólann á Hvanneyri, þannig að þetta er einungis fyrsta skrefið í þeirri sókn sem við sjáum fyrir okkur.

Jafnframt skal það upplýst einu sinni enn að það stóð aldrei til að setja meira en 10 milljónir í rekstur Háskólans á Akureyri, almennan rekstur, til að greiða upp rannsóknarmissiri fyrir árið 2015, því að við teljum að háskólinn og menntamálaráðuneytið þurfi að eiga mikið og gott samtal strax eftir áramótin til þess að Háskólinn á Akureyri verði sambærilegur, á sama stað (Forseti hringir.) varðandi fjárveitingar og Háskólinn í Reykjavík.