144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:57]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér höfum við yfirlýsingu formanns fjárlaganefndar fyrir hönd stjórnarmeirihlutans um að meiri hluti fjárlaganefnd ætli að skipta sér af því hvernig akademísk stjórnun Háskólans á Akureyri fer fram. Við fengum að heyra einnar mínútu ræðu formanns fjárlaganefndar um það hvernig á að reka Háskólann á Akureyri. Ég er algjörlega ósammála þessu, virðulegi forseti. Það verður rætt frekar þar til því verður breytt. Það eru fordæmi fyrir því að breyta hér skýringartexta, eins og ég gat um áðan. Þetta er algjörlega ófullnægjandi. Það er algjörlega óforsvaranlegt að meiri hluti fjárlaganefndar sé að skipta sér af því hvernig háskóli er rekinn, sama hvort það er Háskólinn á Akureyri eða Háskóli Íslands.

Virðulegi forseti. Ég tel að þessu þurfi að breyta og að formaður fjárlaganefndar verði að koma hingað fyrir hönd meiri hlutans og skýra frá því að þær 30 milljónir sem veittar eru til Háskólans á Akureyri séu án takmarkana og að það sé stjórnar skólans að ráðstafa þeim og ákveða hvað gert verður, (Forseti hringir.) líkt og gildir um aðra háskóla á landinu.

Af hverju er meiri hluti fjárlaganefndar að (Forseti hringir.) skipta sér af kennslu í þessum eina háskóla á Íslandi?