144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á þeim æsingi sem á sér stað í þessum ræðustól því að til dæmis hv. þm. Össur Skarphéðinsson, samflokksmaður hv. þm. Kristjáns L. Möllers, hefur stutt þetta framtak frá byrjun og fór yfir það í ræðu í 2. umr. Mig langar að benda á að meiri hluti fjárlaganefndar lagði það jafnframt til fyrir 2. umr. að Háskólinn á Hólum fengi aukalega 40 eða 45 milljónir til að byggja upp svæðið á Hólum svo að skólinn væri betur í stakk búinn til þess að sinna reiðkennslu. Það fór alveg athugasemdalaust í gegn. Þar er að sjálfsögðu texti sem skilyrti þetta fjármagn. Það er einhver skjálfti í kringum þessa ákvörðun varðandi Háskólann á Akureyri.

Ég fullyrði það að ég stend við hvert orð sem ég hef sagt, það á að hefja stórsókn (Forseti hringir.) fyrir Háskólann á Akureyri og þær 10 milljónir sem fóru inn í rannsóknarmissiri við 2. umr. eru einungis byrjunin á þeim fjárveitingum sem háskólinn þarf (Forseti hringir.) til þess að vera háskóli landsbyggðarinnar á Akureyri.