144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna erum við hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir hjartanlega sammála. Ég heyrði fyrst af þessum hugmyndum um sykurskattinn hjá félaga mínum, hv. þm. Frosta Sigurjónssyni. Hann hefur verið að tala í þingflokki framsóknarmanna í allt haust og allan vetur um þessa leið sem endaði svo í því að minni hlutinn flutti breytingartillögu við afgreiðslu bandormsins í morgun eða í forsendum fjárlaga.

Ég hvet þingmenn vegna þess að þetta er mikið lýðheilsumál — og Framsóknarflokkurinn hefur markað sér stefnu í lýðheilsumálum — til að taka höndum saman og vinna þetta á vandaðan hátt. Ár er ekki lengi að líða og helst vildi ég sjá þverpólitískan hóp sem mundi starfa að því að koma með tillögur um að afnema sykurskattinn, má vera í þrepum fyrir mér, en þetta er eitthvað sem við þurfum að vera sammála um því að auðvitað þurfum við á þessum tekjum að halda.

Ég sé til dæmis mjög eftir þeim 380 milljónum sem fóru út úr fjárlögunum á einni nóttu þegar var ákveðið að (Forseti hringir.) lækka ekki eins mikið og áður hafði verið ívilnanir á bílaleigubíla. Þar eru 2 milljarðar ef við (Forseti hringir.) tökum þær allar til baka. Við getum víða fundið fjármagn fyrir ríkið sem er sársaukalaust að sækja.