144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:05]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði í ræðu sinni hér áðan að vandi Ríkisútvarpsins ætti fyrst og fermst rætur að rekja á gjaldahliðinni en ekki tekjuhliðinni og því væri ekki ástæða til að veita hærra framlag til Ríkisútvarpsins.

Nú komu stjórnarmenn samhentir og stjórnendur á fund fjárlaganefndar og fóru yfir það hvað mundi gerast ef þessu yrði haldið fram, ef ekki kæmi aukið fjármagn inn í stofnunina. Það var ekki falleg mynd sem þeir drógu upp og þeir töluðu algjörlega einum rómi og skýrt um að það þyrfti að breyta dagskránni umtalsvert, útsendingartíma hugsanlega og fleiru.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún dragi þetta í efa og hvort hún sjái aðrar leiðir í stöðunni eins og hún er ef fram heldur sem horfir en að draga saman í rekstri og breyta útsendingartíma og efnistökum.