144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var alveg ágætur fundur ef út í það er farið. Þarna fengum við fulltrúa frá Bankasýslunni og fjármálaráðuneytinu. Skoðanir þessara aðila voru nokkuð skiptar. En eins og kom fram í máli fulltrúa fjármálaráðuneytisins þá var það alveg skýrt hvað hafði gerst, það er ekki komið fyrir þingið það frumvarp sem verið var að vonast eftir um niðurlagningu Bankasýslunnar eða það frumvarp, sem jafnvel er verið að tala um, sem breytir raunverulega hlutverki Bankasýslu ríkisins þannig að þetta varð úr.

Ég taldi að fullar fjárheimildir og lagaleg stoð væri fyrir því að reka Bankasýsluna áfram, á þeim fjárheimildum sem markaðar eru í fjármálaráðuneytinu sem tilheyrði áður Bankasýslu ríkisins, en til þess að hafa þetta lagalega rétt var þessi leið farin. Ég lagði fram tillögu (Forseti hringir.) um að farið yrði í þessa vinnu, að starfsemi Bankasýslunnar yrði framlengd, eða ígildi hennar, til 1. júní á næsta ári á meðan verið væri að koma þeim frumvörpum í gegnum þingið sem þarf til að koma þessum málum í lag og viðhalda þessari armslengdarreglu.