144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svolítið vonsvikin yfir því hvernig þeir þingmenn sem hafa komið hér fram í andsvör við mig úr Norðausturkjördæmi taka boðaðri stórsókn Háskólans á Akureyri. (Gripið fram í: Stórsókn hvað?) Ég get ekki sagt annað en að þetta séu frekar dapurleg skilaboð heim í hérað og undarlegt fyrir mig sem þingmann Reykjavíkurkjördæmis suður að vera baráttukona hér á þingi fyrir Háskólanum á Akureyri. (Gripið fram í: Þú sagðir annað sem formaður …) Það er lítið kjördæmapot í því (Forseti hringir.) eins og maður hefur séð til þingmanna landsbyggðarinnar.

Meiri hluti fjárlaganefndar ákvað að gera þetta á þennan hátt. Texti með breytingartillögum í fjárlagafrumvarpi er lögskýringargagn og ég fór yfir það, í fyrra andsvari við hv. þm. Kristján Möller, hvernig málin stæðu. Ég óska eftir því að hv. þm. Bjarkey Olsen komi af fullum þunga með okkur í meiri hlutanum í að byggja upp Háskólann á Akureyri til að hann fái það fjármagn (Forseti hringir.) sem þarf til að vera hjarta háskólasamfélagsins á Norðurlandi, hinum megin á landinu, sem jafnvægi (Forseti hringir.) við háskólasamfélagið hér á suðurhorninu.