144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er leitt að hafa aðeins eina mínútu til að svara hv. þingmanni, sem er aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra en jafnframt fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd. Hvenær í ósköpunum hefur arður af ríkisfyrirtækjum verið markaðar tekjur? Eru það markaðar tekjur ef þú tekur út arð í Isavia? Gert er ráð fyrir 700 millj. kr. til Isavia, en jafnframt er tillaga um viðhald á flugvöllum úti um land upp á 500 millj. kr. og ég fagna því, ekki veitir af. Í nefndaráliti mínu stóð, ég fór yfir það áðan, að það skiptir máli að byggja upp bæði úti á landi og á Keflavíkurflugvelli. En það á ekki að hengja þetta tvennt saman. Þetta eru tvö ólík mál.

Varðandi heilbrigðiskerfið, já, þá var alveg ljóst að við vorum í miklum vanda eftir efnahagshrunið. Við vildum byggja upp og vorum byrjuð á því reyndar. Við vorum hætt að skera niður árið 2012 og farin að gefa til baka 2013. Það þarf að gefa enn betur í og það þekkir hver einasti Íslendingur að heilbrigðiskerfið á Íslandi er í miklum vanda og setja þarf enn meira í það (Forseti hringir.) þó að gefið hafi verið í, það þarf að gera betur.