144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi framhaldsskólann og fjöldatakmarkanir sem þar standa fyrir dyrum höfum við fyrst og fremst rætt að þarna væri verið að borga kjarasamninga kennara með fjöldatakmörkunum. Það er hærra framlag með hverjum nemanda en þeim er fækkað og mörkin eru sett við 25 ára aldur.

Við höfum ekki rætt jafnræði í því sambandi nægilega mikið. Mér finnst ábending hv. þingmanns mjög góð og það þarf að kanna hvort það að skilyrða við 25 ára aldur, að 25 ára og eldri hafi ekki aðgang að opinberu framhaldsskólakerfi þegar kemur að bóknámi, samrýmist stjórnarskránni. Mér finnst það punktur sem við þurfum að skoða vandlega og ég vona að það verði gert. Ef ekki af okkur hér í þinginu þá alla vega af þeim sem sækja (Forseti hringir.) um nám og verður hafnað, að þeir láti reyna á rétt sinn hvað þetta varðar.